Ávarp frá formanni í tilefni 1. maí

Eiður Stefánsson formaður FVSA
Eiður Stefánsson formaður FVSA

Til hamingju með daginn kæru félagar!

Því fylgir vorkomu að blása til hátíðarhalda þann 1. maí, alþjóðlegs baráttudags verkalýðsfélaga um allan heim, og vekja athygli á kjörum og baráttumálum launafólks. Vegna aðstæðna verður ekki efnt til kröfugöngu í ár og því verður dagurinn haldinn rafrænt. Það er engu að síður mikilvægt að halda upp á daginn og það sem hann stendur fyrir, fagna réttindum okkar, líta til framtíðar og þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir.

Fyrst ber að þakka fyrir þá sigra og þann mikla árangur sem verkalýðshreyfingin hefur náð á rúmum hundrað árum.  Árangur sem rekja má til samstöðu félagsmanna stéttarfélaga sem barist hafa fyrir þeim réttindum sem við njótum í dag. Það eru kjarasamningar og löggjöf sem tryggja launafólki laun, hvíldartíma, frídaga, veikinda- og slysarétt, uppsagnafrest, fæðingar- og foreldraorlof og reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað. Almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, rétturinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar, allt er þetta tilkomið vegna baráttu þeirra sem á undan gengu af hugsjón um réttlátt og sanngjarnt samfélag, mannsæmandi vinnuaðstæður og lágmarkslaun á vinnumarkaði.

Hvað skiptir þig máli?

Félagsmenn stéttarfélaganna við Eyjafjörð prýða kynningarefni fyrir verkalýðsdaginn og minna á mikilvægi þessara réttinda. Við vörpum einnig fram spurningunni: Hvað skiptir þig máli? Því þrátt fyrir að búa í velferðarsamfélagi þá er mikilvægt að við veltum svarinu fyrir okkur; lifnaðarhættir okkar, störf og samfélag taka sífellt breytingum og þarfir okkar með. Nærtækasta dæmið fyrir verslunar- og skrifstofufólk er hröð þróun á starfsumhverfi; verslun hefur færst yfir í heimsendingu, sjálfsafgreiðslu og netverslun og skrifstofustörf eru orðin færanlegri með aukinni fjarvinnu. Þessari þróun fylgja nýjar áskoranir við gerð kjarasamninga og því mikilvægt að við orðum það sem skiptir okkur máli sem launafólk, þjóðfélagsþegnar og síðast en ekki síst sem manneskjur.

Í alþjóðlegu samhengi stendur Ísland vel hvað varðar styrk og stöðu stéttarfélaga og launafólks almennt. Víða um heim er réttur fólks til að vera í stéttarfélagi og semja um kaup og kjör virt að vettugi og forystumenn stéttarfélaga fangelsaðir og myrtir. Þá hafa völd og áhrif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og fjármagnseigenda aukist til muna og tök þeirra á fátækum þjóðum heims sömuleiðis. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir lýðræði og krefst sömu grundvallarréttinda fyrir launafólk alls staðar í heiminum, réttinda sem við njótum nú þegar og getum miðlað af reynslu og krafti.

Það er nóg til!

Ef við horfum aftur heim þá er birtingarmynd óréttlætis og ójöfnuðar hér á landi ljós í misskiptingu þeirra lífsgæða sem við sem samfélag búum yfir. Yfirskrift verkalýðsdagsins í ár er „Það er nóg til“, viðkvæði sem við íslendingar þekkjum flest og er gjarnan notað þegar gest ber að garði, við bjóðum öðrum að njóta með okkur þess sem við höfum aflað til jafns við okkur sjálf. En þótt orðin ómi á heimilum landsins þá endurspeglast gestrisnin og samkenndin ekki í dreifingu þeirra fjármuna sem samfélagið í heild aflar. Þannig voru meðallaun tíu tekjuhæstu forstjóra fyrirtækja sem skráð eru í Kauphöllina árið 2020 að jafnaði 6,5 milljón á mánuði og tekjuhæsti forstjórinn var með 44-föld lágmarkslaun. Hér á landi eru auk þess lægstu fjármagnstekjuskattar og fyrirtækjaskattar á Norðurlöndunum, hátekjuhópar hérlendis greiða þannig lægri skatta af hæstu tekjum sínum heldur en tekjuháir á hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi eiga auk þess ríkustu 5% landsmanna allt að um 40% af hreinni eign í samfélaginu og nýr auður ratar hlutfallslega mest til hinna ríku.

Það er ljóst að við sitjum ekki öll við sama borð, enn er langt í land að jöfnuði á okkar gjöfula landi og tilefni fyrir verkalýðshreyfinguna til að setja sér hærri markmið um betri og jafnari kjör, fyrir alla.

Kæru félagar, ég hvet ykkur til þess að fagna deginum, taka þátt í umræðum er snúa að kjörum félagsmanna í víðum skilningi, látum í okkur heyra og sýnum samstöðu á þessum mikilvæga degi.

Eiður Stefánsson

Formaður félags verslunar og skrifstofufólks, Akureyri og nágrenni

Sjá líka 1. maí vef Stéttarfélagana við Eyjafjörð: www.verkalydsdagurinn.is