Blað félagsins kemur út í dag

Félagsblað FVSA kemur út í dag og verður borið út á öll heimili á þjónustusvæði félagsins.

Meðal efnis í blaðinu er leiðari frá formanni félagsins, Eið Stefánssyni, sem bendir á þátt atvinnurekenda og ríkis í hækkun verðbólgunnar, mikilvægi þess að auðlindir landsins og verðmætasköpun þjóni heildinni í stað fárra útvaldra og hvernig ákvarðanir ríkisstjórnarinnar skipti þar höfuðmáli.

Tekið er tal af félagsmönnum á förnum vegi auk þess sem rætt er við fráfarandi stjórnarmann félagsins, Önnu Maríu Elíasdóttur, um félagsstarf í verkalýðshreyfingunni. Einnig er rætt við Gest Gunnar Björnsson um reynslu hans af hlutverki trúnaðarmanns. Þá svarar Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs hjá Stapa, nokkrum almennum spurningum varðandi lífeyrisréttindi.

Fastir liðir líkt og umfjöllun um sumarúthlutun orlofshúsa og verðlaunakrossgátan eru á sínum stað, ásamt fleiri gagnlegum upplýsingum fyrir félagsmenn.

LESA BLAÐIÐ Á VEFNUM