Forsendur kjarasamninga hafa staðist að mati ASÍ

Kjarasamningarnir sem voru undirritaðir 4. apríl 2019, svokallaðir Lífskjarasamningar, hvíla á þremur forsendum:

  1. Að kaupmáttur hafi aukist á samningstímanum.

  2. Að vextir hafi lækkað fram að endurskoðun samningsins.

  3. Að stjórnvöld hafi staðið við gefin fyrirheit samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar sem gefnar voru í tengslum við samningana.

  • Kaupmáttur launa hefur aukist um 4,8% það sem af er samningstímanum og forsenda um aukinn kaupmátt launa hefur því staðist.

  • Stýrivextir hafa lækkað úr 4,5% í 1% eða um 3 prósentustig það sem af er samningstímanum og forsenda um lækkun vaxta hefur því staðist.

  • Tímasett loforð stjórnvalda hafa staðist utan ákvæði um bann við 40 ára verðtryggðum lánum. Frumvarp sem tekur á því máli verður hins vegar lagt fram á komandi haustþingi og er það mat ASÍ að framlagning þess á næstu vikum feli í sér efndir á þeim lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá apríl 2019 (sjá meðfylgjandi skjal með ítarefni).

Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess telja því ekki tilefni til að segja upp kjarasamningum á þessum tímapunkti.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:

„Verkalýðshreyfingin hefur boðið frið á vinnumarkaði og fyrirsjáanleika. Með því sýnum við ábyrgð á erfiðum tímum. Eitt vafaatriði stóð út af það er verðtryggingamálin, en við höfum fullvissu fyrir því að frumvarp verði lagt fram á haustþingi. Því teljum við ekki tilefni til að lýsa yfir forsendubresti vegna þess.“

Ítarefni vegna endurskoðunar kjarasamninga