Heimatilbúin auðlindabölvun

Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni

Heimatilbúin auðlindabölvun

Kjaramál snerta okkur öll og öll höfum við þurft að taka afstöðu um okkar kjör, hvort sem er með undirritun ráðningarsamnings í nýju starfi, greiðslu atkvæðis um kjarasamninga eða þegar sótt er um launahækkun eða betri kjör hjá atvinnurekendum. Verkefni stéttarfélaga í komandi framtíð er að verja áunnin réttindi sinna félagsmanna og tryggja að kjarasamningar fylgi þróun starfa og breyttum áherslum í samfélaginu. Stærsta verkefnið er þó án efa að tryggja jafna dreifingu lífsgæða og að félagsfólk njóti ávaxta vinnu sinnar til jafns við fyrirtækjaeigendur.

Kostnaðurinn er íþyngjandi fyrir heimilin

Á Íslandi eru stýrivextir 6,75% sem er 3,75% hærra en gerist hæst á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir að verðbólga á Íslandi sé í lægri kantinum í samanburði. Þessir umframvextir sem íslenskur almenningur ber á herðum sér má að stærstum hluta rekja til kostnaðar við að halda uppi íslensku krónunni. Þegar síðasta stýrivaxtahækkun verður komin fram í vöxtum bankanna má reikna með að mánaðarlegar greiðslur af íbúðalánum hafi hækkað um rúmar 35.000,- kr. fyrir hverjar 10 milljónir sem lántaki skuldar. Samhliða hefur húsaleiga hækkað mikið síðustu tólf mánuði.  Aukin húsnæðiskostnaður er íþyngjandi fyrir heimilin sem geta ekki borið þessa byrgði til lengri tíma.

Á sama tíma berast fréttir af himinháum arðgreiðslum fyrirtækja og ofurlaunum stjórnenda og forstjóra, mánaðarlaunum sem jafnvel eru margföld árslaun hins almenna launafólks. Engu að síður kemur seðlabankastjóri ítrekað fram í fjölmiðlum og kennir launahækkunum og óhófsemi verkalýðshreyfingarinnar um aukna verðbólgu. Það er í raun ótrúlegt þar sem fram hefur komið frá Seðlabankanum sjálfum að frá árinu 2000 hefur ekki verið hægt að greina tölfræðilegt samband milli launhækkana á íslenskum vinnumarkaði og hækkun verðlags.

Alltaf skal ganga á þá sem minnst hafa

Í haust töluðu fyrirtækjaeigendur og þingmenn fyrir hófsemi í kröfum stéttarfélagana fyrir kjaraviðræður. Krafa okkar á móti var að sömu aðilar myndu sýna hóf í álagningu á vöruverð, gjaldskrár, arðgreiðslur og launahækkanir stjórnenda. Það er skemmst frá því að segja að þvert á móti hafa þessir aðilar ekki sýnt af sér neinn vilja til að mæta okkur á miðri leið, alltaf skal ganga á þá sem minnst hafa.

Nú, eins og síðustu 30 ár, eyðir verðbólgan út öllum þeim krónum sem verkalýðshreyfingin semur um og ávinningur af kjarasamningum er í besta falli rétt nægur til að halda í kaupmátt. Við þokumst því ekkert nær því markmiði að lágmarkslaun á Íslandi dugi til framfærslu.

Seljum ekki ríkisfyrirtæki fyrir skammtímagróða

Það er komin tími á breytingar! Launafólk nýtur ekki þeirra auðlinda sem landið býr yfir né heldur verðmætasköpunar sem verður til fyrir tilstilli vinnu þeirra. Við þurfum að gera kröfu á að þingmenn fari að vinna fyrir okkur öll í stað þess að maka bara krók 10% útvaldra með ákvörðunum sínum. Þessi 10% eiga 90% af öllum eignum á Íslandi og svo virðist sem ríkisstjórnin færi þeim þær á silfurfati, nú síðast Íslandsbanka!

Við erum föst í heimatilbúinni auðlindabölvun yfirvalda, en henni má snúa við! Íslendingar eiga að gera kröfu á að ríkisstjórnin selji ekki ríkisfyrirtæki fyrir skammtíma gróða, Landsbankinn ætti að vera samfélagsbanki, Landsvirkjun, Keflavíkurflugvöllur og auðlindir landsins í okkar eigu. Þannig fjármögnum við betra heilbrigðis- og skólakerfi og innviði landsins. Við ættum líka að hafa kjark til þess að skattleggja ferðamenn eins og önnur lönd, byggja upp ferðamannastaði sem sómi er af og gera ráð fyrir straumi ferðamanna í uppbyggingu innviða Ég skora á ykkur öll að íhuga fyrir alvöru þá kosti sem íslenskur almenningur myndi njóta ef Ísland væri í Evrópusambandinu, með evru í stað íslensku krónunnar.

Líkt og styrkur og afl stéttarfélaga mótast af þátttöku og samstöðu félagsfólks, þá þrífst samfélagið okkar best þegar við vinnum að sameiginlegum markmiðum sem þjóna heildinni, ekki örfáum útvöldum.

Sjáumst í baráttunni!

Eiður Stefánsson, formaður FVSA.

Greinin birtist fyrst í 1. tölublaði 37. árgangi félagsblaðs Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni þann 8. mars.