Lífskjarasamningurinn stendur

Forseti ASÍ, Drífa Snædal, fjallaði um mál líðandi stundar í verkalýðshreyfingunni.
Forseti ASÍ, Drífa Snædal, fjallaði um mál líðandi stundar í verkalýðshreyfingunni.

Þau tíðindi bárust í gær að Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins tóku ákvörðun um að samningar skildu halda og því gildir Lífskjarasamningurinn til 1. nóvember 2022. Þar af leiðandi kemur til launahækkana 1.janúar 2022; almenn launahækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf 17.250 kr. auk þess sem kauptaxtar hækka sérstsaklega um 25.000 kr. Þá gæti komið til hagvaxtarauka á grundvelli þróunar vergrar landsframleiðslu á hvern íbúa, sem metin er í mars og kæmi þá til greiðslu 1. maí. 

Lífskjarasamningurinn var meðal umræðuefna á fundi hjá félaginu í gær þar sem mættir voru um 30 félagsmenn sem sinna trúnaðarstörfum fyrir FVSA. Forseti ASÍ, Drífa Snædal, var viðstödd og fjallaði um Lífskjarasamninginn, herferðina „Það er nóg til“ sem Alþýðusambandið stóð fyrir í aðdraganda kosninga og komandi tíma í verkalýðshreyfingunni. Á eftir fóru fram líflegar umræður um kjaramálin sem vafalaust setja tóninn fyrir næstu samninga. 

Í kjölfarið fór formaður FVSA, Eiður Stefánsson, yfir ýmis málefni sem snúa að félaginu og félagsstarfi vetrarins. Að lokum voru nýkjörnir trúnaðarmenn kynntir og boðnir velkomnir í hópinn.

Það er hverju félagi til happs að hafa félagsmenn sem eru tilbúnir til að sinna trúnaðarstörfum og vera virkir í grasrótinni. Því var einstaklega ánægjulegt hve vel var mætt á fundinn í gær og þökkum við okkar fólki fyrir þeirra framlag.