Mikið stuð á Starfamessu

María Rut, starfsmaður FVSA, ræðir við gesti Starfamessunnar
María Rut, starfsmaður FVSA, ræðir við gesti Starfamessunnar

Föstudaginn 3. mars stóðu námsráðgjafar í grunnskólum Akureyrarbæjar fyrir Starfamessu fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Markmiðið viðburðarins er að nemendur fái tækifæri til þess að kynna sér starfsmöguleika innan fyrirtækja og stofnana á svæðinu og þá menntun sem þarf til að sinna þeim störfum. Með þessu gefst nemendunum tækifæri til þess að kynna sér fjölbreytt og spennandi störf og leggja þannig grunn að menntun sinni í framtíðinni. 

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var með kynningu á starfsemi félagsins á Starfamessunni og lagði áherslu á að minna ungmennin á að vera dugleg að halda utan um vinnutímana sína og skoða launaseðla um hver mánaðarmót. Einnig vöktum við athygli þeirra á starfsmöguleikum innan verkalýðshreyfingarinnar og hve fjölbreyttan bakgrunn starfsfólk innan hreyfingarinnar býr að. 

Alls sóttu tæplega 700 ungmenni viðburðinn, sem haldin var í Hátíðarsal Háskóla Akureyrar, og voru þau öll til fyrirmyndar. Vel var staðið að viðburðinum og þökkum við námsráðgjöfum fyrir boðið.