Vel heppnuð leikhúsferð

Frábær mæting var í leikhúsferð FVSA á laugardag

Það var ekki laust við eftirvæntingu í lofti þegar félagsmenn Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrennis, Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri og Sjómannafélags Eyjafjarðar hittust á laugardag. Tilefnið var leikhúsferð á vegum félagana sem buðu félagsmönnum sínum sem náð hafa lífeyrisaldri á sýninguna Í fylgd með fullorðnum í uppsetningu Leikfélags Hörgdæla. 

Alls mættu 96 prúðbúnir félagsmenn og sameinuðust í rútur við Alþýðuhúsið. Ferðin hófst á kaffisamsæti á Þelamörk og eftir að allir höfðu gætt sér á dýrindis veitingum var haldið að Melum. Við tók lífleg og hressandi sýning sem byggir á lögum Bjartmars Guðlaugssonar, en persónur leikritsins spretta ljóslifandi fram á sviðinu úr textum hans. Í verkinu er lífi Birnu, einkadóttur Krissíar og Sumarliða, fylgt frá vöggu fram á fimmtugsaldurinn. Aðrar persónur fléttast svo inn í líf þeirra með söng, gleði og stundum tárum svo úr varð frábær upplifun. Leikfélag Hörgdæla og leikhöfundur og leiksstjóri, Pétur Guðjónsson, eiga hrós skilið fyrir uppsetninguna og var það mál manna á heimleiðinni að vel hefði tekist til.

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni þakka félagsmönnum fyrir komuna og Leikfélagi Hörgdæla fyrir skemmtunina.