Verkalýðsdagurinn haldinn í blíðskaparveðri

Fánar blakta í blíðskaparveðri, fleiri myndir frá deginum má sjá neðst í fréttinni.
Fánar blakta í blíðskaparveðri, fleiri myndir frá deginum má sjá neðst í fréttinni.

Verkalýðsdagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri í dag. Fjölmennt var í kröfugöngu sem hófst við Alþýðuhúsið á Akureyri við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar. Að kröfugöngu lokinni tók við hátíðardagskrá í Hofi, en ríflega 400 manns fylltu hátíðarsal Hofs, Hamraborg. Veislukaffi var einnig vel sótt í sal stéttarfélaganna í Fjallabyggð. 

Elsa Sigmundsdóttir, skrifstofustjóri Einingar-Iðju, var fundarstjóri og stýrði dagskránni í Hofi. Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM), flutti ávarp 1.maí-nefndar stéttarfélagana við Eyjafjörð sem má lesa í heild hér fyrir neðan. Því næst stigu á svið leikarar frá Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri með tvö stórbrotin atriði úr söngleiknum um Gosa og var þeim vel fagnað. Hátíðarræða dagsins var í höndum Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta Alþýðusambans Íslands. Á vef ASÍ er hægt að hlýða á kveðju frá Finnbirni í tilefni dagsins. Ívar Helgason, tónlistamaður, sló svo lokatóninn með hópsöng, en gestir enduðu á að syngja Maístjörnuna.

Að dagskrá lokinni var gestum boðið upp á kaffihressingu, pylsur og safa, auk þess sem börnin gátu fengið andlitsmálningu. Það má með sanni segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður í alla staði og þökkum við öllum þeim sem komu og fögnuðu með okkur.

Skipulag dagsins var í höndum Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Kjölur - stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, Rafiðnaðarfélag Norðurlands, Byggiðn, Eining-Iðja, Sameyki, Kennarasamband Íslands og Félag Málmiðnaðarmanna Akureyri. Sjáumst hress að ári liðnu!

Ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð í tilefni af baráttudegi verkalýðsins:

Kæru félagar!

Enn á ný hafa vinnandi stéttir á Íslandi tekið höndum saman og gengið á undan með góðu fordæmi. Í vor samþykkti launafólk á almennum vinnumarkaði kjarasamninga sem hafa það að markmiði að leiða til lækkunar á vöxtum og draga úr verðbólgu, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Eftir linnulausar verðhækkanir á nauðsynjavörum og mikilvægri grunnþjónustu var það launafólk sem gekk fram fyrir skjöldu og sagði hingað og ekki lengra. Við komum okkur einnig saman um að semja um hófsamar launahækkanir til að freista þess að slökkva í verðbólgubálinu.

Þrátt fyrir að enn eigi eftir að semja fyrir hönd stórra hópa á opinberum vinnumarkaði hefur línan verið dregin. Nú hermir það upp á ríkisstjórnina, Seðlabanka Íslands, fyrirtækin í landinu og sveitarfélögin að axla sína ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum og berjast gegn verðbólgunni. Ríkisstjórnin þarf að láta af pólitískum skylmingum og einbeita sér að þeim verkefnum sem hún hefur lofað að ráðast í.

Nýleg könnun Vörðu - rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sýnir svo ekki verður um villst, að launafólk hefur sannarlega þurft að bera þungar byrðar. Hærra hlutfall foreldra en áður hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín. Tæplega fjórðungur einhleypra foreldra býr við efnislegan skort og ríflega sex af hverjum tíu einstæðum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum. Fjörutíu prósent allra svarenda gætu ekki mætt slíkum útgjöldum án þess að stofna til skuldar.

Góðir félagar!

Það er átakanlegt að í ríku landi eins og okkar lifi fólk við þessar aðstæður. Á sama tíma eru bankar, útgerðarfyrirtæki og önnur stórfyrirtæki að greiða sér milljarða í arð. Við erum ríkt samfélag þegar horft er til auðlinda í eigu þjóðarinnar og mannauðsins. Það er skiptingin sem er meinið í íslensku samfélagi. Það er aðeins hún sem kemur í veg fyrir að við öll getum notið mannsæmandi lífskjara. Það er nóg til fyrir öll á Íslandi.

Kæru félagar!

Barátta stéttarfélaga fyrir umbótum í samfélaginu og á vinnumarkaði hefur bætt lífskjör almennings á Íslandi svo um munar. En þeirri baráttu verður aldrei lokið. Nýliðinn vetur hefur enn og aftur minnt launafólk á að með samstöðu eru okkur allir vegir færir. Slagorð dagsins á þess vegna vel við nú sem ætíð áður: Sterk hreyfing – sterkt samfélag. Við erum sterkari saman.

Stéttarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu óska félagsfólki  til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins 1. maí.

Takk fyrir mig.