Innskráning inn á Mínar siður - ÝTIÐ HÉR!
Á Mínum síðum á félagavef FVSA getur félagsfólk séð yfirlit yfir félagsgjöld og réttindi í sjóðum hjá félaginu. Allar umsóknir um styrki, sjúkradagpeninga og bókanir orlofshúsa fara núna í gegnum félagavefinn.
Við vekjum athygli á að fyrst um sinn gætu verið smá hnökrar á kerfinu á meðan við fínpússum allar stillingar - við þökkum fyrir þolinmæðina.
Hér fyrir neðan má sjá leiðbeiningar fyrir helstu aðgerðir inni á Mínum síðum FVSA.
Innskráning
Félagsfólk fer inn á http://mitt.fvsa.is og skráir sig þar inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum eða auðkennisappi frá Auðkenni.

Mínar síður - persónublað
Þegar félagsmaður hefur skráð sig inn á Mínar síður birtist yfirlit yfir persónuupplýsingar, félagsgjöld og réttindi í sjóðum félagsins á svokölluðu persónublaði. Undir Sjúkrasjóð og Menntasjóð er hnappur til þess að sækja um styrki í sjóðina. Með því að skruna neðar á síðunni er hægt að sjá ítarupplýsingar um réttindi og sögu félagsmanns hjá félaginu.
Útskýring á persónublaði:

Að bóka orlofshús
Á persónublaðinu inni á Mínum síðum er yfirlit yfir orlofssjóðinn. Ef sveimað er yfir bláa spurningarmerkinu með bendlinum sést sá fjöldi daga sem félagsmaður á eftir af leigudögum í íbúðir eða sumarhús, t.d. þýðir 7:7 að viðkomandi hefur heimild til að bóka sjö leigudaga næstu sex mánuði.

Til að komast inn á bókunarsíðuna, er smellt á takkann Orlofskerfi sem finna má efst til vinstri á Mínum síðum eða bláa takkann við Full réttindi í orlofsrammanum á persónublaðinu.

Á bókunarsíðunni er hægt að velja að sjá öll landssvæði eða eitt ákveðið. Þegar smellt er á staðsetningu opnast listi yfir þær eignir sem eru í boði (Gráhraun á Húsafelli í dæminu hér fyrir neðan) og um leið sést bókunarstaða eignarinnar á viðkomandi tímabili.
Litakóði húsana segir til um stöðu orlofseigna, þ.e. hvort þau eru bókanleg, bókuð, ógreidd, í handvirkri úthlutun (sumarúthlutun) eða úr leigu t.d. vegna viðhalds.
Til að skoða lausar dagsetningar er hægt að velja tímabil á dagatali sem er lengst til vinstri í stikunni undir húsunum.
Þegar búið er að velja svæði, húseign og tímabil sést hvaða daga eignin er laus og hægt að velja þá dagsetningu sem viðkomandi vill bóka. Um leið og leigudagsetningar hafa verið valdar flyst félagsmaður á staðfestingarsíðu þar sem félagsmaður staðfestir dagsetningar sem hann ætlar að bóka og fer svo yfir á greiðslugátt til þess að greiða fyrir leiguna. Athugið: ef þú vilt breyta dagsetningu þarf að velja Hætta við - annars kemur eignin eins og frátekin inni á bókunarvefnum og er ekki bókanleg næstu tíu mínúturnar.
Yfirlit bókana og aðrar aðgerðir
Með því að fara inn á aðalvalmynd á Mínum síðum og skruna niður birtist dálkur sem heitir Orlofssjóður.
Með því að ýta á Skoða er hægt að framkvæma ýmsar aðgerðir og upplýsingar um t.d. fyrri leigur og fleira.

Umsókn vegna styrkja úr sjúkrasjóð
Til að sækja um styrk úr sjúkrasjóð er klikkað á Sækja um styrk í sjúkrasjóðsvalmyndinni sem er fyrir miðju á persónublaðinu á Mínum síðum. Þá birtist þessi síða:

Skýringar á valmynd:
Umsókn um sjúkradagpeninga
Umsóknarform fyrir sjúkradagpeninga lítur í megindráttum út eins og formið fyrir styrki úr sjúkrasjóði. Til að sækja um sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóð er klikkað á Sækja um sjúkradagpeninga í sjúkrasjóðsvalmyndinni sem er fyrir miðju á persónublaðinu á Mínum síðum. Við það opnast umsóknarformið. Í felliglugga er styrktegund valin og í framhaldi þarf að fylla út tímabil veikinda og hlaða upp læknisvottorði og vottorði frá atvinnurekanda (sjá útfylliform til prentunar hér) auk upplýsinga um persónuafslátt.
Umsókn vegna styrkja í Starfsmenntasjóð
Umsóknarform fyrir styrki úr Starfsmennasjóð lítur í megindráttum út eins og formið fyrir styrki úr sjúkrasjóði. Til að sækja um starfsmennastyrk er klikkað á Sækja um styrk í menntasjóðsvalmyndinni sem er neðarlega fyrir miðju á persónublaðinu á Mínum síðum. Við það opnast umsóknarformið. Umsækjandi þarf fyrst að velja tegund styrks úr felliglugga. Í framhaldi þarf að hlaða upp greiðslukvittun fyrir því námi sem greitt var fyrir. Þetta getur verið skjáskot úr heimabanka eða greiðslukvittun frá seljanda þjónustunnar. Í einhverjum tilfellum kemur fram á reikning að hann hafi verið greiddur og þá þarf að hlaða honum upp hér og svo aftur í næsta þrepi. Því næst þarf að hlaða upp reikning fyrir námi sem greitt var fyrir. Á reikning þarf að koma fram nafn og kt. útgefanda reiknings, nafn eða kennitala félagsmanns sem sækir námið og upphæð kostnaðar. Persónuupplýsingar eiga að hlaðast sjálfkrafa upp, annars er hægt að fylla þær út hér.