Frídagar

Á frídögum og stórhátíðum er ekki vinnuskylda.

Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, þ.e. skírdagur, annar í páskum, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu og annar í jólum, auk sumardagsins fyrsta og 1. maí.

Stórhátíðardagar eru nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, frídagur verslunarmanna, jóladagur og eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag.

Vikulegir frídagar

Samkvæmt vinnutímasamningi ASÍ og aðila vinnumarkaðarins eiga starfsmenn rétt á einum frídegi á hverju sjö daga tímabili og skal sá frídagur vera að öllu jöfnu á sunnudögum. Ef frídagur lendir hins vegar á virkum degi skerðir það ekki rétt launþegans til fastra daglauna og vaktaálags.

Frestun á vikulegum frídegi
Fyrirtæki má þó með samkomulagi við starfsmenn sína fresta vikulegum frídegi þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að staðaldri að vikulegum frídegi sé frestað skal um það gerður kjarasamningur.

Helgarfrí

Helgarfrí í verslun samkvæmt samningi LÍV/FVSA og SAÍ bókun með samnningi LÍV og SA frá 2004 segir að aðilar muni beina því til félagsmanna sinna að skipuleggja vinnutíma afgreiðslufólks verslana, sem vinnur alla virka daga, þannig að það eigi frí a.m.k. 6 helgar af hverjum 18 frá föstudagskvöldi fram á mánudagsmorgun.

Helgarfrí í verslun samkvæmt samningi LÍV/FVSA og FA
Verslanir skulu leitast við að skipuleggja vinnutíma starfsfólks sem vinnur alla virka daga, þannig að það eigi frí a.m.k. 8 helgar af 16 frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns.

Frí í desember

Frí vegna álags í desember samkvæmt samningi FVSA, LÍV, VR og SA 
Í samningi VR og SA frá 2004 voru frídagar vegna lengri afgreiðslutíma í desember felldir inn í samninginn. Kveðið var á um það í samningnum að fastráðnir starfsmenn, sem voru í a.m.k. 50% starfi við undirritun samningsins og tóku laun ofan við samningsbundna launataxta, fengju 0,5% hækkun á grunnlaun við þessa breyingu. Þessi starfsmenn hafa þó rétt til að taka tvo frídaga vegna lengri vinnutíma í desember án launa. 

Heimilt er að vinnuveitandi og starfsmaður geri samkomulag um að starfsmaðurinn haldi rétti til tveggja frídaga vegna lengri vinnu í desember, án ofangreindrar launahækkunar.

Frí vegna álags í desember samkvæmt samningi FVSA, LÍV, VR og FA 
Fastráðið afgreiðslufólk og lagermenn verslana sem hafa langan afgreiðslutíma í desember, t.d. á laugardögum eftir kl. 16:00, sunnudögum og Þorláksmessukvöld, og sem vinnur að minnsta kosti 50% starf á rétt á tveimur launuðum frídögum. 

Óski starfsmaður þess á hann rétt á 10% launauppbót miðað við eigin dagvinnulaun í desember í stað 2ja frídaga. 

Þessa frídaga þá má veita fyrir hádegi á aðfangadag og gamlársdag eða eftir jól.