Ráðning

Samkvæmt samkomulagi aðila vinnumarkaðarins er vinnuveitanda skylt að ganga frá ráðningu starfsmanns skriflega ef hann er ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar. En í raun hefur ráðningarsamningur verið stofnaður þegar búið er að samþykkja tilboð um starf. Kjaratengd réttindi sem fylgja ráðningu, s.s. uppsagnarréttur, veikindaréttur o.þ.h., koma þó ekki til fyrr en starfsmaðurinn hefur störf. 

Hvað er ráðningarsamningur?                                                                               
Ráðningarsamningur er samningur milli einstaklings (starfsmanns) og fyrirtækis (atvinnurekanda) um samskipti þeirra, réttindi og skyldur. Starfmaðurinn skuldbindur sig til að vinna fyrir atvinnurekandann gegn greiðslu. Sé starfsmaður ráðinn til lengri tíma en eins mánaðar og að meðaltali lengur en 8 klst. á viku, skal eigi síðar en tveim mán­uðum eftir að starf hefst gerður skriflegur ráðningar­samningur eða ráðning staðfest skriflega. Láti starfsmaður af störfum áður en tveggja mánaða frestinum lýkur, án þess að skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður eða ráðning staðfest skriflega, skal slík staðfesting látin í té við starfslok.

Hvað á að koma fram í ráðningarsamningi?          
Í ráðningarsamningi eða skriflegri staðfestingu ráðningar, þ.e. ráðningarbréfi, skal a.m.k. eftirfarandi koma fram: 

  • Deili á aðilum þ.m.t. kennitölur.

  • Vinnustaður og heimilisfang vinnuveitanda. Sé ekki um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum.

  • Titill, staða, eðli eða tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.

  • Fyrsti starfsdagur.

  • Lengd ráðningar sé hún tímabundin.

  • Orlofsréttur

  • Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns.

  • Mánaðar- eða vikulaun, t.d. með tilvísun til launataxta, mánaðarlaun sem yfirvinna er reiknuð af, aðrar greiðslur eða hlunnindi svo og greiðslutímabil.

  • Lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku.

  • Lífeyrissjóður.

  • Tilvísun til gildandi kjarasamnings og hlutaðeigandi stéttarfélags.

  • Upplýsingar skv. 6. - 9. tl. má gefa með tilvísun til kjara­samninga.

Störf erlendis og ráðningarsamningur                                                                                            Sé starfsmanni falið að starfa í öðru landi í einn mánuð eða lengur skal hann fá skriflega staðfestingu ráðningar fyrir brottför. Auk almennra upplýsinga, eins og greint er frá hér að ofan, skal eftirfarandi koma fram: 

  • Áætlaður starfstími erlendis

  • Í hvaða gjaldmiðli laun eru greidd

  • Uppbætur eða hlunnindi sem tengjast starfi erlendis

  • Eftir atvikum skilyrði þess að starfsmaður geti snúið aftur til heimalandsins.

Samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi                                                                                      
Ákvæði í ráðningarsamningum sem banna starfsmönnum að ráða sig til starfa hjá samkeppnisaðilum vinnuveitenda eru óskuldbindandi séu þau víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni eða skerða með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi starfsmannsins. Hvort svo er verður að meta í hverju einstöku tilviki að teknu tilliti til allra atvika. Samkeppnisákvæði mega því ekki vera of almennt orðuð.  

Við mat á því hversu samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi má vera víðtækt, einkum hvað varðar gildissvið og tímamörk, þarf að horfa til eftirfarandi þátta:

  • Hvers konar starfi viðkomandi starfsmaður gegnir, t.d. hvort hann er lykilstarfsmaður, er í beinu sambandi við viðskiptamenn eða ber ríka trúnaðarskyldu. Einnig hvaða vitneskju eða upplýsingar starfsmaðurinn kann að hafa um starfsemi fyrirtækisins eða viðskiptamenn þess.

  • Hversu hratt þekking starfsmannsins úreldist og hvort gætt sé eðlilegs jafnræðis milli starfsmanna.

  • Hvers konar starfsemi er um að ræða og hverjir eru samkeppnisaðilar á þeim markaði sem fyrirtækið starfar og þekking starfsmanns nær til.

  • Að atvinnufrelsi starfsmanns sé ekki skert með ósanngjörnum hætti.

  • Að samkeppnisákvæðið sé afmarkað og hnitmiðað í því skyni að vernda ákveðna samkeppnishagsmuni.

  • Þá hefur einnig áhrif hvaða umbun starfsmaður fær, t.d. hver laun hans eru. 

Samkeppnisákvæði ráðningarsamninga gilda ekki sé starfsmanni sagt upp störfum án þess að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu til þess.

Ráðningarsamningur til útfyllingar                                                                                                   Hér er sýnishorn af ráðningarsamningi á vef ASÍ sem þú getur fyllt út á skjánum og prentað út. Til að opna samninginn og vinna í honum þarftu að hafa forritið Acrobat Reader.