Fræðsla um vinnutíma og laun

Launaseðillinn

Skoðar þú launaseðilinn þinn reglulega

Um hver mánaðamót skal starfsmaður fá launaseðil, bæði svo hægt sé að fara yfir það hvernig laun eru reiknuð og ekki síður til að staðfesta að um ráðningasamband sé að ræða; að skattar og önnur gjöld séu dregin frá í samræmi við gildandi lög og reglur.

Það er mikilvægt að fara yfir launaseðilinn við hver mánaðamót og fylgjast með því að laun séu reiknuð út í samræmi við vinnuframlag. Þetta á sérstaklega við starfsfólk sem vinnur á vöktum, er með breytilegan vinnutíma og/eða í tímavinnu.  

Vinnutími - utanumhald

Heldur þú utan um vinnutímann þinn?

Á mörgum vinnustöðum er stimpilklukka þar sem starfsmenn stimpla sig inn og út. Starfsmaður sem gleymir að stimpla sig inn og/eða út getur óskað eftir því við yfirmann að handfæra vinnutímann, en þá er ekki síður mikilvægt að starfsmaður fylgi því eftir með því að skoða launaseðilinn til að tryggja að vinnutíminn hafi verið færður inn. Mannleg mistök gerast á báða bóga. Hægt er að óska eftir útprentun úr stimpilklukku til að bera saman tíma.

Starfsmenn geta haldið utan um eigin vinnutíma og skráð aukavinnustundir, vaktir, veikinda- og frídaga í dagbók eða með rafrænum hætti t.d. í Excel eða Notes. 

Flest fyrirtæki gefa út rafræna launaseðla, starfsmenn fá þá ýmist senda á netfang sitt eða hafa aðgang að þeim í sínum heimabanka undir rafrænum skjölum. Fái starfsmaður launaseðla afhenta útprentaða eða í pósti hvetjum við viðkomandi til þess að halda vel utan um þá og geyma. 

Launataxtar - dæmi 

Ert þú á réttum launataxta miðað við aldur og reynslu?

Mörgum getur reynst flókið að átta sig á hvaða launataxtar eiga við um þeirra vinnutíma, á þetta helst við um starfsfólk í vakta- eða tímavinnu. Til glöggvunar höfum við sett upp þrjú dæmi fyrir starfsmenn í verslun sem sýna hvaða launataxtar eiga við. 

Það er ágætis regla fyrir starfsfólk sem starfar lengi hjá sama fyrirtæki að kanna hvort að það eigi rétt á hækkun launa vegna starfsreynslu. Miðað er við hækkun eftir ákveðið tímabil, sem er mislangt eftir starfsgreinum og aldri. Starfsreynsla getur þannig hækkað laun umfram grunntaxta óháð aldri. 

Lista yfir launataxta má nálgast hér.

Dæmi 1 - 19 ára starfsmaður í verslun með sex mánaða reynslu hjá fyrirtæki 

Ráðningarsamningur: fastar vaktir með skóla 

Vaktaplan: 
Mánudaga-fimmtudaga kl. 16:00-20:00 
Föstudaga: 14:00-18:00 

Að beiðni yfirmanns vinnur starfsmaður á föstudaginn langa*, og svo aukalega einn tíma á miðvikudegi og þrjá á laugardegi**.
Dæmi 1 - vinnustundir og launataxtar

Dagvinna: 2.624,63 kr. á tímann miðað við sex mánaða reynslu
Eftirvinna: Greiðist eftir kl. 18:00, 3.629,82 kr. á tímann 
Stórhátíðarálag: 6.060,73 kr. á tímann 

Athugið: 
*Ef lokað er á stórhátíðardegi fær starfsmaður daginn greiddann samkvæmt vaktaplani. Ef starfsmaður er beðinn um að vinna á stórhátíðardegi fær hann þá tíma sem hann vinnur á stórhátíðarkaupi auk sinna hefðbundnu vinnutíma samkvæmt vaktaplani.  
** Þegar unnið er á laugardögum og sunnudögum greiðist aldrei minna en 4 tímar í eftir-/nætur-/yfirvinnu jafnvel þótt unnið sé skemur. 

Dæmi 2 - 20 ára starfsmaður í nýrri vinnu

Ráðningarsamingur: fastar kvöldvaktir

Vaktaplan:
Mánudaga-föstudaga kl. 16:00-22:00
Annan hvern laugardag: 16:00-00:00 

Að beiðni yfirmanns vinnur starfsmaður til klukkan 02:00 á fimmtudegi og mætir fyrr á föstudegi*

Dæmi 2 - vinnustundir og launataxtar

Dagvinna: 2.566,10 kr. á tímann miðað við byrjunarlaun
Eftirvinna: Greiðist eftir kl. 18:00, 3.548,87 kr. á tímann 
Næturvinna: 3.802,70 kr. á tímann 

Athugið:
*Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11. klst samfellda hvíld. Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að samfelldur vinnutími fari umfram 13. klst. 

Dæmi 3 - 26 ára starfsmaður með 5 ára starfsreynslu

Ráðningarsamningur: Dagvinna kl. 09:00-18:00 

Vinnutími:
Alla mánudaga-föstudaga kl. 09:00-18:00*

Að beiðni yfirmanns vinnur starfsmaður klukkutíma lengur á föstudegi og aukavakt á laugardegi**.

Dæmi 3 - vinnustundir og launataxtar

Dagvinna: 2.786,78 kr. á tímann
Yfirvinna: 4.860,30 kr. á tímann** 

Athugið: 
*Virkur vinnutími í verslunum án neysluhléa er 35,83 klst. á viku. Séu kaffitímar teknir er vinnutími 38,75 klst. á viku.

**Yfirvinna telst hver sú vinna sem fer fram yfir hinn venjulega dagvinnutíma svo og á laugardögum og sunnudögum umfram 171,15 klst. Þ.e. starfsmaður í fullri vinnu sem vinnur yfir 171,15 tíma í dag- og eftirvinnu fær tíma umfram það greidda sem yfirvinnu.

Ef þú ert í vanda með að skilja launaseðilinn þinn getur þú rætt við trúnaðarmann á þínum vinnustað eða leitað til okkar.