Orlofsréttur

Orlofsárið er frá 1. maí - 30. apríl ár hvert og skal orlof tekið í samráði við vinnuveitanda. Á orlofstímanum frá 2. maí - 15. september eiga allir rétt á 24 daga orlofi jafnvel þó þeir eigi ekki rétt til orlofslauna allan þann tíma hjá vinnuveitanda. Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. Greiða skal út orlof við starfslok.

FVSA, LÍV, VR gerir heildarkjarasamninga við tvenn samtök vinnuveitenda; Samtök atvinnulífsins (SA) og Félag atvinnurekanda (FA), og eru ákvæði um orlofsrétt mismunandi eftir þessum tveimur samningum.

Orlofsréttur samkvæmt samningi LÍV og SA

Lágmarksorlof er 24 virkir dagar (tveir orlofsdagar ávinnast fyrir hvern unninn mánuð á orlofsárinu). Orlofslaun eru 10,17% af heildarlaunum.

  • Eftir 5 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 25 daga orlof og skulu orlofslaun vera 10,64%.

  • Eftir 5 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 27 daga orlof og skulu orlofslaun vera 11,59%.

  • Eftir 10 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof og skulu orlofslaun vera 13,04%. 

Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi hann verið sannreyndur. Heimilt er að veita orlof umfram 20 daga að vetri nema um annað hafi samist

Frí í stað desember- og orlofsuppbóta
Heimilt er með samkomulagi milli starfsmanns og vinnuveitanda að fella niður eða lækka orlofs- og/eða desemberuppbót og veita samsvarandi frí í staðinn. Það frí skal veita í heilum eða hálfum dögum.

Dæmi: Starfsmaður hefur kr. 150.000 fyrir fullt starf. Dagkaup hans er því kr. 6.922 (150.000/21,67). Orlofsuppbót er kr. 15.900 (árið 2004). Fyrir orlofsuppbótina geta starfsmaður og vinnuveitandi samið um að starfsmaðurinn fái tvo frídaga á launum (kr. 6.922 x 2) auk þess sem greiddar eru kr. 2.056 sem eftistöðvar af orlofsuppbót.

Orlofsréttur samkvæmt samningi FVSA, LÍV, VR og FA

Lágmark orlofs skal vera 24 virkir dagar. Orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu. Við útreikning orlofs skal nota deilitöluna 21,67, laugardagar ekki meðtaldir. Fimm fyrstu laugardagar teljast ekki til orlofs. Varðandi orlofslaun skoðast sá, sem hefur minnst eins mánaðar uppsagnarfrest, fastur starfsmaður. 

  • Eftir 5 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 25 daga orlof og skulu orlofslaun vera 10,64%.

  • Eftir 5 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 27 daga orlof og skulu orlofslaun vera 11,59% frá 1. maí 2008.

  • Eftir 10 ár í sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof og skulu orlofslaun vera 13,04% frá 1. maí 2008.

Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir þriggja ára starf hjá nýju fyrirtæki, enda hafi hann verið sannreyndur. Heimilt er að veita orlof umfram 20 daga að vetri nema um annað hafi samist.