Frá aðalfundi, skýrsla stjórnar og ársreikningur 2023

Guðmundur Lárus Helgason tekur á móti þakklætisvotti frá Huldu Björnsdóttur, varaformanni FVSA (t.v.…
Guðmundur Lárus Helgason tekur á móti þakklætisvotti frá Huldu Björnsdóttur, varaformanni FVSA (t.v.) og Eið Stefánssyni (t.h.) fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.

Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var haldinn mánudaginn 26. febrúar í sal Lions í Alþýðuhúsinu. Fundarsókn var með ágætum, en alls mættu 40 manns. Fundarstjóri var Halldór Óli Kjartansson.

Formaður félagsins, Eiður Stefánsson, kynnti ársskýrslu félagsins. Hann tók fram hve ánægjulegt það hefði verið að sjá ný andlit og gamalreynd leggja sig fram í störfum innan hreyfingarinnar á starfsárinu. Framkvæmdum og viðhaldi orlofshúsa voru gerð góð skil, enda umfangsmikið verkefni á liðnu ári. Eiður benti á að mikill metnaður sé hjá stjórn og trúnaðarráði að halda vel við bústöðum og íbúðum félagsins, enda hefur mælst mikil ánægja með orlofshúsin meðal félagsmanna.

Árskýrslu stjórnar og ársreikning félagsins má nálgast rafrænt hér.

Í framhaldi tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Hermann Brynjarsson, frá Enor, kynnti ársreikning félagsins sem var borinn upp til samþykktar ásamt ársskýrslu og voru hvoru tveggja samþykkt einróma. Claudia Lobindzus kynnti kosningar og Agnes Reykdal lýsti stjórnarkjöri. Aðrir dagskrárliðir voru í höndum fundarstjóra.

Í dagskrárlok óskaði formaður eftir orðinu og kynnti til leiks tvo félagsmenn; Guðmund Lárus Helgason og Júlíu Gunnlaugsdóttur Poulsen, en þau hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið í meira en 10 ár og láta nú af störfum sínum. Bæði hafa þau verið trúnaðarmenn og setið í trúnaðarráði, en Guðmundur hefur auk þess setið í stjórn Sjúkrasjóðs og verið skoðunarmaður reikninga hjá félaginu. Eiður þakkaði þeim fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Formaður sleit fundinum og lauk máli sínu á að þakka félagsfólki, stjórn, trúnaðarráði, trúnaðarmönnum og starfsfólki fyrir samstarfið á árinu.