Gleðilega verslunarmannahelgi!

Verslunarmannahelgi framundan

Í aðdraganda frídags verslunarmanna eru iðulega margir á faraldsfæti og helgin sjálf stærsta ferðahelgi ársins. Mikið er að gera þessa helgi, starfsfólk verslana undir miklu álagi og ófá ungmennin enn á sínum fyrstu mánuðum í starfi.

Þolinmæði og góð samskipti

Það er áhyggjuefni að sífellt fleira félagsfólk leitar til okkar með fyrirspurn um réttindi sín gagnvart samskiptum við viðskiptavini verslana, sem oft skortir þolinmæði og almenna kurteisi í garð starfsmanna. Fúkyrði og dónaskapur leysir ekkert, en það er öruggt að starfsmenn sem verða fyrir slíku eiga ekki góðan vinnudag. Því hvetjum við til þolinmæði og góðra samskipta um þessa álagshelgi sem endranær.

Stórhátíðarkaup

Í tilefni af frídegi verslunarmanna þann 7. ágúst viljum við minna á að hann er stórhátíðardagur skv. kjarasamningum FVSA/LÍV. Á stórhátíðum er ekki vinnuskylda, nema um slíkt hafi verið samið sérstaklega milli starfsmanns og vinnuveitanda. Fyrir vinnu á frídegi verslunarmanna ber að greiða með stórhátíðarálagi, auk fastra og reglubundinna launa.

Starfsmenn sem hefðu haft vinnuskyldu á þessum mánudegi, eiga rétt á að fá greidda dagvinnu fyrir þennan dag og á það jafnt við um starfsmenn á föstum mánaðarlaunum og starfsmenn sem fá greitt skv. tímakaupi.

Ég óska félagsmönnum og landsmönnum öllum til hamingju með daginn og óska ykkur góðrar ferðahelgar.

F.h. stjórnar Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
Eiður Stefánsson, formaður FVSA