Kröfugerð og ályktun félagsfundar FVSA.

Þriðjudaginn 2. október hittist stjórn og trúnaðarráð FVSA á fundi til að útbúa kröfugerð félagsins vegna komandi kjaraviðræðna. Kröfugerð félagsins var unnin upp úr skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir FVSA á dögunum og sköpuðust miklar umræður um efnið. Að lokum var fallist á kröfugerðina og má sjá hana hér að neðan. Einnig var samþykkt að fela Landssambandi íslenskra verslunarmanna samningsumboð FVSA.

Fimmtudaginn 4. október var haldinn félagsfundur FVSA í Hofi á Akureyri. Róbert Farestveit hagfræðingur ASÍ kom á fundinn og fjallaði um efnahagshorfur og þróun vaxta-, húsnæðis- og barnabóta. Næst kom Hanna Þórey Guðmundsdóttir frá Gallup og fór yfir niðurstöður skoðanakönnunar sem Gallup framkvæmdi fyrir FVSA.  

Kröfugerðin sem samþykkt var af stjórn og trúnaðarráði 2. október var kynnt félagsmönnum. Síðan var borin upp ályktun sem var samþykkt á fundinum. Hægt er að lesa ályktunina í heild sinni hér að neðan.

Kröfugerð félagsins er svohljóðandi:

Kröfugerð Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni fyrir komandi kjaraviðræður. 

Þessi niðurstaða samninganefndar FVSA var fengin með skoðanakönnun meðal félagsmanna. Könnunin var send á 1139 manna úrtak og var fjöldi svarenda 661 sem er rétt um 39% félagsmanna. 58% þeirra sem fengu könnunina senda svöruðu.  

Áherslur FVSA í næstu samningum gagnvart atvinnurekendum.

Launamyndun og samningstími.

FVSA leggur áherslu á að farin verði blönduð leið krónutölu og prósentuhækkana.

  • Samningstíminn verði tvö til þrjú ár.
  • Launataxtar þurfa að hækka á samningstímanum um 30.000 til 100.000 kr. með tilliti til samningstíma.
  • Laun þurfa að hækka um 7% til 25% með tilliti til samningstíma. 

Aðrar áherslur gagnvart atvinnurekendum

  1. Stytting vinnuvikunnar án þess að laun skerðist.
  2. Hækkun lægstu launa umfram annarra.
  3. Lágmarkslaun fylgi lágmarks framfærslu.
  4. Byrjunarlaun miðast við 16 ára
  5. Lengja orlof.
  6. Auka veikindarétt vegna barna.
  7. Veikindaréttur vegna veikinda nákominna ættingja.

Áherslu FVSA í næstu samningum gagnvart stjórnvöldum.

  1. Hækkun persónuafsláttar þannig að lágmarkslaun verði skattfrjáls
  2. Afnám verðtryggingar
  3. Aðgerðir er miða að stöðugleika verðlags
  4. 12 mánaða fæðingarorlof í stað 9
  5. Afnema tekjutengingu lífeyrisgreiðslna
  6. Lægri kostnaðarhlutdeild notenda í heilbrigðiskerfinu
  7. Hækkun barna- og vaxtabóta
  8. Stuðningur til fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði
  9. Aukið aðgengi að öruggu leiguhúsnæði

Ályktun félagsfundar:

Ályktun FVSA.

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni gerir kröfu um styttingu vinnuviku án þess að laun skerðist. Stytting vinnuviku hefur mælst vel fyrir þar sem henni hefur verið komið á og hefur hún haft jákvæð áhrif á starfsfólk og vinnustaði, starfsánægja hefur aukist, líðan á vinnustað batnað o.fl.

Kjararáð hefur sett tóninn hvað varðar hækkanir og verður óneitanlega horft til þeirra hækkana í komandi samningagerð. Ljóst er að hækka þarf laun þeirra lægst launuðu umfram laun annarra. Í núverandi árferði getur fólk ekki lifað sómasamlegu lífi á lægstu launum, sem í dag eru 300.000 kr. fyrir fulla vinnu. Dæmi eru um að fólk þurfi að greiða allt að 2/3 hluta launa sinna í húsnæðiskostnað. Fólk sem er í þessari stöðu festist oft í fátæktargildru sem erfitt er að ná sér upp úr. Lækka þarf leigukostnað með því að efla leigufélagið Bjarg, vextir eru alltof háir á Íslandi og verulega íþyngjandi fyrir íbúðakaupendur og krefst FVSA að verðtryggingin verði afnumin

FVSA styður ályktun ASÍ-UNG um að aldurstenging launa ungmenna verði afnumin með öllu. FVSA krefst þess að byrjunarlaun verði miðuð við 16 ára en ekki 20 ára. Við 16 ára aldur er fólk farið að greiða skatta og greiða félagsgjöld til stéttarfélaga, með það í huga telur FVSA ekki réttlætanlegt að greiða 16 ára lægri laun en 20 ára.

FVSA gerir kröfu um hækkun persónuafsláttar, sem og hækkun barna- og vaxtabóta. Ríkið hefur skert barna- og vaxtabætur töluvert á undanförnum árum með lækkun á skerðingarmörkum. Með þessu móti hefur enn verið vegið að þeim lægst launuðu, þ.e. fólki sem hefur treyst á þessar bætur.

     
  
Eiður formaður FVSA                Róbert hagfr. hjá ASÍ             Hanna Þórey frá Gallup