Varst þú að vinna um páskana?

Við minnum þá félagsmenn sem unnu á frí- og stórhátíðardögum um páskana að fara yfir launaseðlana sína og ganga í skugga um að laun hafi verið greidd skv. réttum launataxta.

Starfsfólk á að halda föstum og reglubundnum launum á skilgreindum frí- og stórhátíðardögum. Samþykki starfsfólk að taka að sér vinnu á þessum dögum skal greiða sérstaklega fyrir þá vinnu, til viðbótar við greiðslu fyrir fastan og reglubundinn vinnutíma.

Launataxtar

Frídagar í apríl

Á frídögum (skírdag, annan í páskum og sumardaginn fyrsta) greiðist eftirvinna eða yfirvinna eftir því sem við á.

Starfsmaður sem t.d. á vakt/vinnutíma á frídegi þar sem vinnuveitandi velur að hafa lokað á rétt á að fá tímana greidda í dagvinnu. Sinni starfsmaður vinnu á frídegi fær hann unna tíma greidda í eftirvinnu eða yfirvinnu eftir því sem við á.

Starfsmaður sem á t.d. átta tíma vakt samkvæmt vaktaplani á frídegi en vinnur aðeins sex tíma vegna styttri opnunartíma, fær þá unna tíma greidda í eftirvinnu eða yfirvinnu eftir því sem við á auk átta tíma í dagvinnu. 

Stórhátíðardagar í apríl

Á stórhátíðardögum (föstudagurinn langi og páskadagur) greiðist stórhátíðarálag.

Sá starfsmaður sem sinnir störfum á þessum dögum fær dagvinnutíma (skv. vaktaplani/umsömdum vinnutíma) greidda auk þeirra tíma sem unnir eru á stórhátíðardegi á stórhátíðarálagi.

Aðrir frí- og stórhátíðardagar á árinu

Frídagar:

  • 1. maí
  • Uppstigningardagur
  • Annar í hvítasunnu
  • Annar í jólum

Stórhátíðardagar:

  • Nýársdagur
  • Hvítasunnudagur
  • 17. júní
  • Frídagur verslunarmanna
  • Jóladagur
  • Eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag

Leitaðu til okkar!

Ef þið hafið einhverjar spurningar þá er ykkur velkomið að hafa samband í síma 4551050, senda línu á fvsa@fvsa.is eða líta við á opnunartíma.