Vel heppnaður vinnufundur félagsmanna

Nýafstaðinn vinnufundur félagsmanna var vel sóttur og mál manna að vel hefði til tekist.  Yfirskrift fundarins var Við vinnum í samræmi við yfirskrift 45. þings ASÍ, sem haldið verður 10.-12. október nk. 

Formaður félagsins, Eiður Stefánsson, bauð gesti velkomna og kynnti dagskrá fundarins. Næst tók til máls Guðrún Edda Baldursdóttir, starfsmaður ASÍ, og fór yfir fyrirkomulag hópavinnu, sem var með þjóðfundarfyrirkomulagi, og kynnti þau gögn sem voru til umfjöllunar.

Félagsmönnum, alls 30 talsins, var skipt í fimm vinnuhópa sem fjölluðu um þau stefnuskjöl sem lögð verða fyrir þingið. Hver hópur tók fyrir tvo málaflokka og gátu félagsmenn í framhaldi gefið atriðum innan þeirra atkvæði sitt. Að lokum voru niðurstöður atkvæðagreiðslu hvers hóps kynntar og tæpt á þeim atriðum sem helst var rætt um. 

Vinnufundir sem þessir eru mikilvægur partur af starfsemi FVSA. Félagsmönnum gefst þar tækifæri til þess að taka þátt í að móta stefnu félagsins í þeim málefnum sem eru á döfinni hverju sinni. Niðurstöður þessa fundar eru veganesti fyrir fulltrúa félagsins á komandi þingi, en FVSA á þar fimm fulltrúasæti.

Félagið þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir komuna, umræður voru líflegar og ánægjulegt hve vel tókst til.