Vel lukkuð Starfamessa

Starfamessu var að ljúka í Háskólanum á Akureyri, en það eru starfs- og námsráðgjafar í grunnskólum Akureyrar sem standa að skipulagi dagsins. Á Starfamessunni gefst nemendum í grunnskólum á Eyjafjarðarsvæðinu tækifæri til þess að kynna sér starfsemi og starfstækifæri innan fjölbreyttra fyrirtækja og stofnana og eiga samtal við starfsmenn þeirra. Í ár bauðst framhalds- og háskólanemum einnig kostur á að sækja viðburðinn.

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var meðal þeirra sem kynnti starfsemi sína á Starfamessunni. Fulltrúar félagsins lögðu áherslu á hve breiðan bakgrunn starfsfólk innan hreyfingarinnar býr að, auk þess að minna á hlutverk stéttarfélaga og mikilvægi þess að unga fólkið sé vakandi fyrir eigin hag.

Þetta er í annað sinn sem félagið er með kynningu á Starfamessu, sem er frábært tækifæri til að vekja athygli á hlutverki stéttarfélaganna og starfsmöguleika innan þeirra.