38. þing Alþýðusambands Norðurlands (AN) var haldið á Illugastöðum dagana 3. og 4. október. Starfssvæði AN nær yfir Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni er eitt af ellefu aðildarfélögum AN og átti ellefu þingfulltrúa á þinginu, en í heild sóttu 82 fulltrúar þingið.
Á þinginu var samhljóða samþykkt ályktun um heilbrigðismál þar sem gerð er krafa á hendur stjórnvöldum að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Ályktunina má lesa í heild hér.
Einnig var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri 500.000 kr. til starfseminnar og voru sveitarfélögin á Norðurlandi Eystra um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra.
Dagskrá þingsins var fjölbreytt og samanstóð m.a. af fróðlegum gestaerindum auk hefðbundinna þingstarfa.
Dagskráin hófst fyrir hádegi á fimmtudeginum. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, doktor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri flutti erindið Slúður sem félagslegt vald og stjórnun sem hún byggir m.a. á doktorsritgerð sinni sem ber heitið Ein af þessum sögum. Félagslegt taumhald, fólksflutningar og slúður: ungar konur í litlum byggðarlögum á Íslandi. Því næst flutti Steinunn Stefánsdóttir erindið Að setja mörk og vakti þingfulltrúa til umhugsunar um gildi þess að setja mörk í leik og starfi. Þá tók við kynning Jóns Gunnars Þórðarsonar á smáforritinu Bara tala sem býður upp á starfstengt íslenskunám sem eykur orðaforða, hlustunarfærni og þjálfar aðflutta í íslensku. Þá kynnti Róbert Farestveit, sviðssjóri hagfræði- og greiningarsviðs ASÍ, helstu hagtölur líðandi stundar og fór yfir stöðuna í samfélaginu. Deginum lauk á erindi frá forseta ASÍ, Finnbirni A. Hermannssyni, sem ítrekaði mikilvægi smærri stéttarfélaga í hreyfingunni og hvernig fulltrúar þeirra geta verið talsmenn hennar út á við. Einnig fjallaði hann um samspil verkalýðshreyfingarinnar, ríkis og sveitarfélaga.
Föstudagurinn hófst á kynningu Ingunnar Helgu Bjarnadóttur, verkefnastjóra og ráðgjafa, á starfsemi og námsframboði hjá Símey. Þá tók við Björn Snæbjörnsson, formaður kjaranefndar eldri borgara á Íslandi, með erindið Er líf eftir vinnumarkaðinn, hvað tekur við? Að lokum steig í pontu Atli Einarsson, framkvæmdastjóri Vilko ehf., með erindið Við viljum Vilko! - landslag matvælaframleiðanda á landsbyggðinni þar sem hann rakti sögu fyrirtækisins og sagði frá þeim áskorunum sem fylgja því að reka framleiðslufyrirtæki á landsbyggðinni.
Starsmaður PWC fór yfir ársreikninga og fjárhagsáætlun sem samþykkt voru samhljóða. Í kjölfarið var tillaga kjörnefndar um nýja stjórn Alþýðusambands Norðurlands (AN) til árana 2024-2026 lögð fram og samþykkt samhljóða:
Ósk Helgadóttir, frá Framsýn, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Með henni í stjórn eru Jóhannes Jakobsson, frá Byggiðn, sem er varaformaður stjórnar, og Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, sem er ritari stjórnar.
Varamenn í stjórn eru Eydís Bjarnadóttir frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni, Aneta Potrykus frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar og Atli Hjartarsson frá Öldunni stéttarfélagi.
Einnig voru kjörnir tveir skoðunarmenn reikninga til tveggja ára; Rósfríð Kristín Áslaugsdóttir, frá Einingu-Iðju, og Stefanía Árdís Árnadóttir, frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni. Arna Dröfn Björnsdóttir, frá Öldunni stéttarfélagi, var kjörin varamaður þeirra.