Formannafundur ASÍ

Frá formannafundinum - mynd fengin af vef ASÍ
Frá formannafundinum - mynd fengin af vef ASÍ

Í gær komu formenn aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) saman á svokölluðum formannafundi í húsakynnum ASÍ. Fulltrúi Félags Verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var Eiður Stefánsson.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, ávarpaði fundinn og lagði áherslu á samheldni stéttarfélaganna og mikilvægi samtryggingar í samfélaginu:

„Við byggjum á samtryggingu fyrst og fremst; það að launafólk bindist samtökum en þurfi ekki að standa eitt gegn ofurefli er ekki bara grundvöllur lífsgæða einstaklings heldur velferðar samfélagsins alls. Í þessu felst líka að baráttuna gegn hvers kyns félagslegum undirboðum og sniðgöngu á stéttarfélögum er barátta okkar allra, því undirboð hafa sterka tilhneigingu til að smitast hratt og örugglega til allra stétta.“

Þá gerði hún að umfjöllunarefni starfsemi gulra stéttarfélaga, einkavæðingu öldrunarþjónustu, stöðuna á vinnumarkaði og endurskoðun kjarasamninga. 

Ræðu Drífu má lesa í heild HÉR

Að fundi loknum var gefin út ályktun um tilraunir til niðurbrots á verkalýðshreyfingunni; 

„Formannafundur ASÍ fordæmir með öllu tilraunir til niðurbrots á skipulagðri verkalýðshreyfingu á Íslandi og varar sterklega við uppgangi gulra stéttarfélaga. Einkenni slíkra félaga er að þau eru undir áhrifavaldi atvinnurekenda, ýmist beint eða óbeint, sækja sér ekki styrk til heildarsamtaka launafólks heldur standa utan þeirra og gera aldrei ágreining í kjaradeilum. Slík félög eru þekkt fyrir að gera lakari kjarasamninga en frjáls og skipulögð verkalýðshreyfing og grafa þannig undan almennum launakjörum í landinu.“

Ályktunina má lesa í heild HÉR