Niðurstöður skoðanakönnunar

Ánægja félagsmanna með þjónustu félagsins mælist há
Ánægja félagsmanna með þjónustu félagsins mælist há

Niðurstöður skoðanakönnunar 

Dagana 25. febrúar til 1. apríl gafst félagsmönnum Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni (FVSA) tækifæri til að taka þátt í skoðanakönnun á vegum félagsins. Markmiðið var að kanna hug félagsmanna gagnvart þjónustu FVSA annarsvegar og komandi kjarasamninga hinsvegar. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum Gallup.

Könnunin var send á alla þá félagsmenn sem eru með netfang sitt skráð hjá félaginu, aðrir félagsmenn gátu óskað eftir þátttöku sérstaklega. Heildarúrtak var 1.538 manns og var fjöldi svarenda 648, eða 42,1%. Álíka margir svöruðu könnuninni sem gerð var árið 2018, eða 661 manns.

Niðurstöður og kröfugerð kynnt félagsmönnum

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á félagsfundi þann 27. apríl í Hofi. Eiður Stefánsson, formaður FVSA, ávarpaði gesti, Róbert Farestveit, hagfræðingur ASÍ, hélt erindi um horfur í efnahagsmálum og Íris Björg Birgisdóttir, frá Gallup, kynnti niðurstöður úr skoðanakönnuninni. Í framhaldinu kynnti María Rut Dýrfjörð, starfsmaður FVSA, kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamninga, en hún byggir á niðurstöðum könnunarinnar ásamt vinnu trúnaðarmanna og starfsmanna félagsins.

Niðurstöður könnunarinnar í heild má nálgast með því að klikka á hlekkinn hér að neðan, auk þess sem lesa má helstu niðurstöður hér fyrir neðan.

Niðurstöður könnunar

Þjónusta 

Mikil ánægja gagnvart félaginu mælist meðal félagsmanna

Ef litið er á niðurstöður er varða þjónustu félagsins stendur upp úr hve marktæk og jákvæð breyting er með ánægju félagsmanna FVSA milli mælinga. Þá var tekið sérstaklega fram í kynningu Gallup að ánægjan er meiri en mælist að jafnaði í könnunum Gallup fyrir stéttarfélög (m.v. aðrar stéttarfélagskannanir sem Gallup hefur gert síðan árið 2009). Einnig kemur fram að ríflega 80% félagsmanna fyndist auðvelt að leita upplýsinga eða stuðnings hjá félaginu ef á þyrfti að halda, sem er ánægjulegt. 

Spurt var um einstaka þjónustuliði FVSA þar sem kemur fram aukning í nýtingu meðal félagsmanna að undanskilinni aðstoð við kjaramál sem fer úr 6,6% árið 2018 í 5,0% nú. Félagsmenn fengu tækifæri til þess að koma á framfæri skoðun sinni á félaginu og fékk FVSA almennt góða umsögn undir þeim lið.

Fleiri nýta orlofshús og -íbúðir félagsins

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að fleiri félagsmenn nýta sér orlofshús- og/eða íbúðir félagsins en áður. Nýting eykst með hækkandi aldri félagsmanna. Almenn ánægja er með verðlagningu á leigu orlofskostanna, en góður meirihluti telur verðið vera hæfilegt. Þar er frátalið Skógarsel, en þar telur um helmingur svarenda leigu vera heldur háa (36,5%) eða of háa (15.8%).

Skiptar skoðanir voru á leyfi til gæludýrahalds í orlofshúsum félagsins, hlutfall andvígra (43,6%) er meira en þeirra sem eru hlynntir (35,85%), aðrir (20,6%) svöruðu hvorki né.

Orlofshús- og íbúðir félagsins fengu almennt góða einkunn og mátti helst sjá tækifæri í að bæta húsbúnað á Illugastöðum, almennt reyndist ekki breyting á mati félagsmanna frá síðustu mælingu.

Kjaramál

Áherslur gagnvart atvinnurekendum

Í könnuninni var spurt hvað ætti að leggja mesta áherslu á gagnvart atvinnurekendum í næstu kjarasamningum. Í fjölvalsspurningu, þar sem svarendur völdu þrjú atriði af sex eftir mikilvægi, var langmest áhersla lögð á að tryggja kaupmátt, en sá valmöguleiki fékk 58,8 af 100 stigum mögulegum í mikilvægiseinkunn. Næst mest var lögð áhersla á launaþáttinn; annarsvegar sérstaka hækkun lægstu launa og hinsvegar við beinar launahækkanir, þar fengu báðir möguleikar tæplega 35 af 100 stigum. Þá skoruðu aukin réttindi og atvinnuöryggi næst með ríflega 21 stig hvort og að lokum fékk starfsumhverfið 7,9 stig.

Mestur áhugi fyrir blandaðri leið í launahækkunum 

Líkt og árið 2018 voru félagsmenn spurðir hvaða áherslur það teldi að FVSA ætti að hafa í næstu kjarasamningum um launahækkanir. Flestir félagsmenn völdu blandaða leið með prósentuhækkun með ákveðnu lágmarki og hámarki í krónum. Árið 2018 völdu hinsvegar flestir krónutöluhækkun og næst flestir blandaða leið.

Áunnin réttindi fylgi launafólki 

Þegar spurt var út í hvað eigi að leggja mesta áherslu á til að efla réttindi félagsmanna voru langflestir sem vildu sjá áunnin réttindi fylgja launafólki milli vinnuveitenda, en sá möguleiki fékk mikilvægiseinkunina 60,1 af 100. Aukinn sveigjanleiki vegna starfsloka fékk 24,6 stig, stytting vinnuvikunnar 23,9 stig, sérstakur veikindaréttur vegna umönnunar t.d. foreldra eða maka 23,9 stig og fjölgun orlofsdaga 22,0 stig. Aðrir valmöguleikar skoruðu minna en 20 stig. Í niðurstöðunum kemur fram að stuðningur við fjölgun orlofsdaga er mestur meðal fólks á barneignaraldri og að stuðningur við færanleika réttinda er heldur meiri á meðal eldri félagsmanna. 

Flestir vilja semja til fjögurra ára

Félagsmenn voru beðnir að segja til um hvað þeir teldu að verkalýðshreyfingin eigi að semja til langs tíma í komandi samningaviðræðum. Flestir svarenda völdu að semja til fjögurra ára, eða 38,8%. 27,1% völdu þrjú ár og 26,1% völdu tvö ár. Í niðurstöðunum kemur fram að yngra og tekjulægra fólk vill frekar semja til skemmri tíma en þeir sem eru eldri og tekjuhærri vilja frekar semja til lengri tíma. 

Áherslur gagnvart stjórnvöldum

Þrjú áhersluatriði fengu álíka mikið vægi í heildina þegar spurt var um hvað félagið ætti að leggja mesta áherslu á í næstu samningum gagnvart stjórnvöldum; lækkun vaxta (30,3 stig af 100), hækka persónuafslátt (30,1 stig) og að afnema eða draga úr tekjutengingum bóta- og lífeyrissjóða (28.9 stig). Aðrir möguleikar fengu færri en 23 stig af 100 mögulegum í mikilvægiseinkunn.

Fjarvinna

Í fyrsta sinn var ákveðið að kanna umfang og aðbúnað þeirra félagsmanna sem sinna starfi sínu að einhverju leyti í fjarvinnu. Niðurstöður leiddu í ljós að ríflega þriðjungur þeirra sem svöruðu könnuninni hafa unnið einhverja fjarvinnu á síðustu 12 mánuðum, þar af hefur tæplega helmingur unnið einn dag eða meira í viku hverri. Flestir hinna hafa unnið minna en einn dag í viku. Almennt reyndist ekki mikill kynjamunur milli þeirra sem sinna fjarvinnu og ánægja með vinnuaðstöðu heima fyrir mældist mikil, en 68,1% sögðust ánægð með aðstöðuna.     

Tæplega 44% þeirra sem sinna starfi sínu í fjarvinnu hafa mikinn áhuga á að halda áfram að vinna í fjarvinnu. Meiri áhugi er á heimavinnu hjá þeim sem vinna mikið heima (70-85%), mestur áhugi hjá þeim sem vinna alla daga heima (85%). Áhuginn mælist meiri hjá þeim sem eru tekjulægri, en minni hjá þeim sem eru tekjuhæstir.