Niðurstöður könnunar

Niðurstöður könnunar

Í byrjun mánaðar gerði félagið könnun þar sem hugur félagsfólks til áhersluatriða gagnvart atvinnurekendum í komandi kjaraviðræðum var kannaður. Niðurstöðurnar voru fyrst kynntar á vinnufundi trúnaðarráðs og þeirra sem gegna trúnaðarstörfum hjá félaginu, þann 6. nóvember.

Könnunin var send til þess félagsfólks sem er með netfang sitt skráð inni á félagavefnum, samtals 1.426 einstaklingar. Alls svöruðu 362 könnuninni, eða ríflega 23 prósent.

Spurt var þriggja spurninga í könnuninni:

  • Hvaða áherslu telur þú að FVSA/LÍV eigi að hafa í næstu kjarasamningum um launahækkanir?
  • Hvað telur þú að verkalýðshreyfingin eigi að semja til langs tíma í komandi kjaraviðræðum?
  • Veldu það atriði sem þú telur mikilvægast í forgangsröðun gagnvart atvinnurekendum í komandi kjaraviðræðum?

Áherslur um launahækkanir

Í síðasta kjarasamningi FVSA / LÍV við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var í desember 2022, var samið um prósentuhækkun launa með hámarki í krónutölu. Hækkunin var 6,75%, að hámarki kr. 66.000. Kauptaxtar hækkuðu hlutfallslega meira, eða allt að 13%, og kjaratengdir liðir hækkuðu um 5%. 

Í könnuninni kusu flest með áherslu á prósentuhækkanir með lágmarki og hámarki í krónum, eða 127 manns. Næstflest atkvæði hlaut sama krónutöluhækkun fyrir öll, eða 98 manns. Þá hlaut prósentuhækkun með lágmarki í krónum 61 atkvæði.

Lengd kjarasamnings

Núgildandi kjarasamningur FVSA / LÍV við atvinnurekendur var til 15 mánaða, frá og með nóvember 2022 til og með janúar 2024.

Flest, eða 132, völdu 2 ára samningstíma í könnuninni. Nánast jafnmörg kusu eins og þriggja ára samningstíma, eða 93 og 91 manns. Aðeins 34 kusu með 5 ára samningstíma.

Forgangsröðun gagnvart atvinnurekendum

Stytting vinnuvikunnar hlaut flest atkvæði í forgangsröðn gangvart atvinnurekendum, eða 122 atkvæði. Þá hlaut aukinn orlofsréttur 84 atkvæði og aukinn veikindaréttur 41 atkvæði.

Kjaraviðræður

Gildistími núgildandi kjarasamninga er til 31. janúar 2024. Samningurinn var framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022, en við undirritun var viðræðum um önnur atriði en launalið í kröfugerð frestað.

Samið var um almenna hækkun mánaðarlauna um 6,75%, að hámarki um 66.000,- kr. og launataxtar hækkuðu frá 36.015 kr. til 52.139 kr. Samningnum var ætlað að byggja undir stöðugleika og skapa forsendur fyrir langtímasamningi.

Samhliða var skrifað undir verkáætlun sem nær yfir aðrar kröfur á hendur atvinnurekenda og hefur sú vinna staðið yfir síðan núgildandi samningur var undirritaður. Aðildarfélög Alþýðusambands Íslands hafa að auki lýst yfir vilja til þess að standa saman að kröfum á hendur ríkisstjórninni.

Niðurstöður könnunarinnar eru veganesti fyrir samninganefnd félagsins og þökkum við öllum þeim sem gáfu sér tíma til að svara henni.