Réttindi þín í desember!

Það er að mörgu að hyggja í desember, ekki síst hjá þeim starfa við verslun, en með lengri opnunartíma og aukadögum sem opið er fylgir gjarnan talsverð aukavinna.

Því er mikilvægt að halda vel utan um vinnutíma á aðventunni, skrá þá niður og bera saman við launaseðla, þannig er hægt að komast hjá misskilningi og mistökum við útreikning launa.

Félagsmönnum er velkomið að leita til okkar með spurningar er varða réttindi. Síminn er 455-1050 og netfangið fvsa@fvsa.is 

Í jólaösinni er jafnframt tilefni til þess að skerpa á eftirfarandi réttindum: 

Desemberuppbót 

Desemberuppbót er samkvæmt kjarasamning FVSA/LÍV 103.000,- kr. fyrir fullt starf á árinu 2022. Desemberuppbót greiðist eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Hvíldartími

Á hverjum sólarhring á starfskraftur rétt á 11 klst. hvíld. Óheimilt er samkvæmt lögum að skipuleggja vinnu á þann hátt að vinnudagurinn sé lengri en 13 klst.

Ef 11 klst. hvíld næst ekki skal veita hana síðar. Þannig safnast svokallaður frítökuréttur upp. Fyrir hverja klst. sem 11 tíma hvíldin skerðist um öðlast starfskraftur 1,5 klst. í dagvinnu í frítökurétt.

Dæmi: Starfskraftur hefur störf kl. 10:00. Hann lýkur störfum kl. 23:00 og kemur aftur til vinnu kl. 08:00 daginn eftir. Samfelld hvíld á milli vinnudaga er einungis 9 klst. Hvíldartími hefur þ.a.l. verið skertur um 2 klst. og öðlast viðkomandi starfskraftur því frítökurétt upp á 3 klst. fyrir vikið.

  • Undir öllum kringumstæðum er óheimilt að skerða 8 klst. samfellda hvíld.
  • Vinnu skal skipuleggja á þann hátt að hver starfskraftur fái a.m.k. einn vikulegan frídag. Ef starfskraftur er látinn vinna 7 daga í röð á hann rétt á fríi á virkum degi í næstu viku á eftir, án skerðingar launa.

Frídagar yfir hátíðarnar

Ekki er vinnuskylda á eftirfarandi dögum og skal starfsfólk halda föstum og reglubundnum launum á skilgreindum frídögum. Samþykki starfsfólk að taka að sér vinnu á skilgreindum frídögum skal greiða sérstaklega fyrir þá vinnu, til viðbótar við greiðslu fyrir fastan og reglubundinn vinnutíma. 

Frídagar: annar í jólum.

Stórhátíðardagar: jóladagur, eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag, nýársdagur

Fyrsta vinnudag eftir jól skal dagvinna í verslunum hefjast kl. 10:00.

Helgarvinna 

Þegar unnið er á laugardögum og sunnudögum greiðist aldrei minna en 4 tímar þótt unnið sé skemur.

Tímabundin ráðning í desember

Ef starfskraftur er ráðinn inn í verslun yfir jólin tímabundið, t.d. einungis í þrjár vikur og vinnur umfram 116,25 tíma (7,75 tímar x 15 dagar) skal greiða yfirvinnukaup fyrir alla tíma sem unnir eru umfram það.