Kveðja frá formanni - töfrar jólanna

Töfrar jólanna

Jólin eru tími minninga sem hver einstaklingur geymir innra með sér og jólahaldið sjálft byggir á hefðum hvers og eins. Ég og kona mín héldum okkar fyrstu jól saman árið 1984, þá rétt orðin nítján ára. Í fyrstu blönduðum við því sem okkur var kærast af hefðum foreldra okkar en fetuðum okkur smátt og smátt í átt að eigin hefðum. Dýrmætast er þó, og hefur alltaf verið, að njóta jólanna með fjölskyldu og vinum og skapa með þeim nýjar minningar.

Þessi tími getur reynst mörgum erfiður og rétt að huga að þeim sem upplifa einmanaleika, sorg eða söknuð. Margir glíma auk þess við fjárhagsáhyggjur yfir hátíðarnar, einkum þeir sem eiga erfitt með að ná endum saman á hefðbundnum mánaðamótum. Í okkar nútímasamfélagi ætti enginn að þurfa að hafa áhyggjur af því að geta ekki framfleytt fjölskyldu sinni eða óttast að geta ekki fært betri mat á borð og gjafir undir tré um jólin. Fátækt er orð sem ekki ætti að þekkjast á Íslandi, orðið merkir langvarandi skort og því miður búa allt of margir Íslendingar við fátækt. Íslenskt samfélag hefur alla burði til þess að standa vel að þeim sem hér búa, líkt og yfirskrift verkalýðsdagsins sagði til um í ár; það er nóg til! Dreifing þeirra fjármuna sem samfélagið aflar nær hinsvegar ekki til allra og í ár bárust 430 umsóknir um styrk til matarkaupa til Velferðarsjóðs Eyjafjarðar, sem er metfjöldi frá upphafi. Það ætti að vera markmið okkar sem samfélag að rétta hag þeirra til frambúðar og ég hef trú á því að með samhentu átaki takist það.

Ég vil nýta tækifærið og hrósa aðstandendum Velferðarsjóðs Eyjafjarðar og þeim einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum sem leggja þeim lið. Megi þeirra starf verða til þess að sem flestir upplifi töfra jólanna í faðmi fjölskyldu og ástvina.

Félagsmönnum og landsmönnum öllum óska ég gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Eiður Stefánsson formaður