Þing AN vel heppnað

Þingfulltrúar FVSA, frá hægri: María Rut Dýrfjörð, Helgi Sveinbjörn Jóhannsson, Gestur  Gunnar Björn…
Þingfulltrúar FVSA, frá hægri: María Rut Dýrfjörð, Helgi Sveinbjörn Jóhannsson, Gestur Gunnar Björnsson, Helga Guðrún Pálsdóttir, Sirrý Laxdal, Eydís Bjarnadóttir, Eiður Stefánsson og Hulda Björnsdóttir.

37. þing Alþýðusambands Norðurlands

Dagana 29. og 30. september fór fram 37. þing Alþýðusambands Norðurlands (AN). Alls sendu aðildarfélögin 77 þingfulltrúa á þingið, en þar af voru sjö frá Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2019 sem aðildarfélögin koma saman og því mikið um fagnaðarfundi. Að þessu sinni var þingið pappírslaust og gafst það vel.

Fjölbreytt dagskrá á þinginu

Dagskrá þingsins var fjölbreytt og erindi gesta fróðleg. Helga Þyrí Bragadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá VIRK í Eyjafirði, sagði frá starfi og árangri VIRK. Næst fjallaði Ellen Jónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eystra, um helstu verkefni, stöðu og framtíðarsýn stofnunarinnar. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Kjarnafæðis Norðlenska ehf., sagði frá starfsemi fyrirtækisins og þeim áskorunum sem kjötvinnsla á Íslandi stendur frammi fyrir. Farið var yfir málefni trúnaðarmanna; Sirrý Laxdal frá FVSA, Elsa Hrönn Gray Auðunsdóttir og Sigríður Þórunn Jósepsdóttir frá Einingu-Iðju og Guðmunda Steina Jósefsdóttir frá Framsýn sögðu frá starfinu og viðhorfinu til þess. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjarg íbúðafélags, fór yfir uppbyggingu félagsins og viðskiptamódelið á bak við það. Að lokum fór Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttindasviðs Stapa, yfir það helsta í lífeyrismálum. 

 Samvinna og samstarf AN við Orlofsbyggðina á Illugastöðum

Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, fór yfir samvinnu og samstarf Alþýðusambands Norðurlands og orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum. Í framhaldinu var orðið laust um málefnið og í framhaldinu kynntu starfsmenn ASÍ, Bergþóra Hrönn Guðjónsdóttir og Guðrún Edda Baldursdóttir, fyrirkomulag hópavinnu sem fór fram með þjóðfundarfyrirkomulagi. Við tók málefnalegt og gott samtal í hópunum sem endaði á kosningu um málefni samstarfsins.

Deginum lauk með öðrum málum. Steig þá í pontu Bergvin Bessason, varaformaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, sem lagði til að rætt yrði um möguleikann að opna fyrir dýrahald í orlofsbyggðinni. Umræða skapaðist um málefnið og niðurstaða að leggja tillöguna fyrir stjórn Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum. Lauk þar fyrri degi þingsins. 

Annar þingdagur

Annar dagur þingsins hófst á því að starfsmenn ASÍ kynntu niðurstöður úr hópavinnu frá deginum áður, sem voru í framhaldi lagðar fram til umsagnar og afgreiðslu. Þá tók við kynning á ársreikningum og fjárhagsáætlun AN, því næst var fjárhagsáætlunin borin upp til samþykktar og samþykkt einróma.

Kjör nýrrar stjórnar

Anna Júlíusdóttir, frá Einingu-Iðju, var kjörin nýr formaður AN til næstu tveggja ára. Önnur kosin í stjórn eru Aneta Potrykus, frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar, sem er varaformaður stjórnar og Atli Hjartarsson, frá Öldunni stéttarfélagi, sem er ritari stjórnar. Varamenn í stjórn eru Vigdís Edda Guðbrandsdóttir, frá Samstöðu, Guðný Grímsdóttir, frá Framsýn, og Trausti Jörundarson, frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar.

Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni þakkar þingfulltrúum fyrir setu á þinginu fyrir hönd félagsins.