31. þing Alþýðusambands Norðurlands fór fram á
Illugastöðum um liðna helgi. Á þingið mættu rúmlega 100 þingfulltrúar frá flestum stéttarfélögum á
Norðurlandi.
Þingið fór í alla staði mjög vel fram og var m.a. m.a. fjallað um efnahags-, kjara- og atvinnumál, og velferðar- og
húsnæðismál. Ályktanir um þau mál má lesa neðar á síðunni.
Fjölmargir gestir mættu á þingið og fluttu fróðleg erindi. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, fjallaði um stöðu og
horfur í kjara- og efnahagsmálum, Brynhildur Pétursdóttir, fulltrúi Neytendasamtakanna á Akureyri, fluttu erindið
Neytendafræðsla,
þótt fyrr hefði verið. Þá fjallaði Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri fjárfesta og lektor við viðskiptadeild
Háskóla Íslands, um viðskiptalífið í fyrirlestri sem hann kallaði
Hrunið, uppgjörið og framtíðin. Að lokum
fjallaði Lárus Blöndal, deildarstjóri á Hagstofu Íslands, um hlutverk, stöðu og ásýnd verkalýðshreyfingarinnar.
Nýr formaður AN til næstu tveggja ára var kosinn Heimir Kristinsson, varaformaður Fagfélagsins, en með honum í stjórn eru þau
Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags, og Unnur Guðjónsdóttir, frá Framsýn stéttarfélagi. Varamenn
í stjórn eru Snæbjörn Sigurðarson, Framsýn stéttarfélagi, Guðrún Aðalheiður Matthíasdóttir, Samstöðu, og
Matthildur Sigurjónsdóttir, Einingu-Iðju.
Ályktun um efnahags-, kjara- og atvinnumál
31. þing Alþýðusambands Norðurlands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags-, kjara- og atvinnumála.
Verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin undirrituðu í sumar
stöðugleikasáttmála sem ætlað var að vera leiðarvísir út úr kreppunni. Markmið sáttmálans var að stuðla að
endurreisn efnahagslífsins með því að skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu, nýrri sókn í atvinnumálum, auknum hagvexti og
leggja þannig grunn að bættum lífskjörum til framtíðar. Aðilar sáttmálans voru einnig sammála mikilvægi þess að styrkja
stöðu heimilanna, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störfin eins og kostur er.
Samhliða gerð stöðugleikasáttmálans var gengið frá kjarasamningum út árið 2010 þar sem áhersla var lögð á
að styrkja stöðu þeirra tekjulægstu.
Nú, rúmum þremur mánuðum eftir undirritun stöðugleikasáttmálans og kjarasamninganna eru blikur á lofti. Vextir eru enn háir,
verðbólga mikil, gengið veikt, lítið bólar á þeim fjárfestingum sem tryggja áttu nýja sókn í atvinnumálum og
kjarasamningar kunna að vera í uppnámi.
Við þetta verður ekki unað. þingið krefst þess að ríkisstjórnin láti verkin tala, tryggi starfhæft bankakerfi sem geti veitt heimilum
og fyrirtækjum eðlilega fyrirgreiðslu og komi þannig í veg fyrir óþarfa gjaldþrot, klári þau óleystu mál sem hamla
því að gengið styrkist, vextir lækki og skapi skilyrði fyrir fjárfestingum í atvinnulífinu.
Þingið bendir á að á Norðurlandi eru fjölmargir raunhæfir fjárfestingarkostir s.s. álver á Bakka, Vaðlaheiðargöng og
gagnaver á Blönduósi sem þegar þarf að hrinda í framkvæmd. Jafnframt telur Alþýðusamband Norðurlands ástæðu til
að kanna möguleika á auknum aflaheimildum við þessar afar erfiðu aðstæður í þjóðfélaginu.
31. þing Alþýðusambands Norðurlands leggur áherslu á að verja stöðu þeirra lægst launuðu. Því telur sambandið
mikilvægt að verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins tryggi að kjarasamningar haldi gildi sínu til loka samningstímans.
Ályktun um velferðar- og húsnæðismál
31. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að nú þegar verði afkoma heimila í landinu tryggð. Háir vextir, mikil
verðbólga, fall krónunnar, lækkun húsnæðisverðs og versnandi atvinnuástand hafa skilið fjölmargar fjölskyldur og einstaklinga eftir
á barmi eignamissis og gjaldþrots auk þeirra sem nú þegar hafa misst allt sitt.
Þingið gagnrýnir þann seinagang sem einkennt hefur vinnubrögð stjórnvalda og peningastofnana er varða málefni fjölskyldufólks og
einstaklinga, en loks hafa stjórnvöld vaknað til lífsins og fagnar þingið þeim hugmyndum sem félagsmálaráðherra hefur kynnt vegna
leiðréttingar á greiðslubyrði lána. Þingið hvetur ráðamenn þjóðarinnar til að útfæra þær
nánar og koma í framkvæmd sem allra fyrst. Líta ber á aðgerðir þessar sem fyrsta skref til leiðréttingar á greiðsluvanda
heimilanna í landinu. Verði ekkert að gert nú þegar, blasir við fjöldagjaldþrot hjá íslenskum heimilum.
Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins sem hlúa ber að með öllum tiltækum ráðum. Leggja þarf höfuðáherslu
á að sem víðtækust sátt náist um þær aðgerðir sem framundan eru. Samstaða þegna þessa lands er grundvöllur
þess að friður ríki um lausn mála á komandi misserum.
Þá verða stjórnvöld einnig að gæta þess að fyrirhugaður niðurskurður bitni sem minnst á þeim hópum sem standa
höllum fæti í þjóðfélaginu.