Vorhreingerning

Með hækkandi sól og hlýnandi veðri hugsa margir sér til hreyfings fyrir sumarið og það er ánægjulegt að segja frá því að orlofshús og -íbúðir félagsins eru vel bókuð næstu vikur og mánuði. Til að undirbúa húsakostinn fyrir álagstímann eru gerð alþrif á orlofshúsum, svokölluð vorhreingerning. Í ár voru að auki veggir í eldhúsi, sjónvarpsholi, gangi og einu herbergjanna í Skógarseli máluð nú á dögunum.

Orlofshúsin og -íbúðirnar eru eign félagsmanna FVSA og ávallt hefur verið lögð áhersla á snyrtilega umgengni og gott viðhald. Í leigusamningi sem félagsmenn fá afhendann við greiðslu eru leiðbeiningar um hvernig skilja skal við íbúð/hús við brottför, en til áminningar eru hér helstu leiðbeiningar um frágang og skil hér fyrir neðan. Að lokum biðlum við til félagsmanna að láta starfsfólk á skrifstofu vita ef eitthvað bilar, brotnar eða er ábótavant í íbúðum og húsum félagsins til að hægt sé að bregðast við. 

Við minnum félagsmenn sem eiga bókaðar íbúðir og sumarhús að nálgast lykla hjá okkur og skila þeim svo eins fljótt og kostur er að dvöl lokinni. Þá er rétt að minna á að af öryggisástæðum er félagsmönnum óheimilst að nýta orlofshús og -íbúðir félagsins sé viðkomandi, eða gestur á hans vegum, í sóttkví eða einangrun.

Við þökkum ykkur fyrir góða umgengni og óskum ykkur gleðilegs sumars! 

Illugastaðir og Skógarsel

 • Allir bústaðirnir eru reyklausir (á líka við um veip)
 • Ekki er leyfilegt að hafa gæludýr í bústöðunum
 • Leigjandi þarf að ryksuga, skúra og þrífa baðherbergi
 • Leigjandi þarf að þurrka af öllum borðum, stólum, úr skúffum og þess háttar
 • Ganga skal vel um eldhústæki og þrífa vel eftir notkun, s.s. grill, ofn, helluborð osfrv
 • Ganga skal vel um útisvæði, hirða rusl og þrífa heitann pott að lokinni notkun
 • Við komu fær leigutaki þrjá borðklúta, tvær diskaþurrkur, gólfmoppu og tvær rúllur af wc-pappír, ræstiefni er í húsunum. Gott er að hafa með sér auka tuskur og diskaþurrkur

Fjarlægja skal allt rusl, tómar flöskur og dósir. Ruslagámar eru við bílastæði hjá Skógarseli og á Illugastöðum.

Sé illa gengið frá kemur til aukakostnaður á leigjanda

Illugastaðir: lyklar eru staðsettir í lyklahúsi við útidyrahurðina
Skógarsel: leigjandi þarf að nálgast lykla á skrifstofu félagsins

Mánatún - íbúðir 

 • Allar íbúðirnar eru reyklausar (á líka við um veip)
 • Ekki er leyfilegt að hafa gæludýr í íbúðunum
 • Leigjandi þarf ekki að ryksuga, skúra eða þrífa baðherbergi
 • Leigjandi þarf að þurrka af öllum borðum, stólum, úr skúffum og þess háttar
 • Ganga skal vel um eldhústæki og þrífa vel eftir notkun, s.s. ofn, helluborð osfrv
 • Vakin er athygli á því að eftirlitsmyndavélar eru í sameign

Að gefnu tilefni viljum við benda leigendum á að ALLT rusl verður að fara inn í ruslageymslu sem er staðsett við inngang í bílageymslu, lykill er á lyklakippu.

Sé illa gengið frá kemur til aukakostnaður á leigjanda