Vextir og verðtrygging

Öll skilyrði eru til staðar fyrir vaxtalækkun; lítil skuldsetning, hátt sparnaðarhlutfall og rúmur gjaldeyrisvaraforði. Nýr kjarasamningur skapar forsendur fyrir vaxtalækkun en lægri vextir til frambúðar er ein mesta kjarabót íslenskra heimila.

Þá hafa stjórnvöld gefið út yfirlýsingu um þau skref sem þurfi að taka til afnáms verðtryggingar. Farið er yfir þau hér fyrir neðan.

Lækkun vaxta

Meginmarkmið samningsins er að skapa hér skilyrði fyrir lækkun vaxta

Skilyrði til lækkunar vaxta:

  • Skynsamur lífskjarasamningur til fjögurra ára. Felur í sér beina tengingu milli svigrúms atvinnulífsins til launabreytinga og hækkunar launa.
  • Stöðugt gengi krónunnar. Ólíkt fyrri niðursveiflum er Ísland nú vel í stakk búið til að takast á við efnahagsáfall sem dregur úr líkum á veikingu krónunnar.
  • Jafnvægi á húsnæðismarkaði. Aukið framboð íbúðarhúsnæðis mun áfram draga úr verðhækkun íbúða.

Verðbólga ræðst að mestu leyti af þróun gengis krónunnar, launa og húsnæðisverðs. Þar af leiðir að:

  1. Skynsamir kjarasamningar
  2. Jafnvægi á fasteignamarkaði
  3. Stöðugt gengi krónunnar

Skapa skilyrði fyrir til vaxtalækkunar

 

 

Verðtrygging

Stjórnvöld nefna sjö atriði sem séu nauðsynleg í átt að afnámi verðtryggingar:

  1. Frá og með ársbyrjun 2020 verði óheimilt að veita verðtryggð jafngreiðslulán til neytenda til lengri tíma en 25 ára nema með ákveðnum skilyrðum. Rökin fyrir þessu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána að verðbótum er bætt við höfuðstól lánsins og greiðslu þeirra frestað þannig að eignamyndun verður hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast.
  2. Frá og með ársbyrjun 2020 verði lágmarkstími verðtryggðra neytendalána lengdur úr fimm árum í tíu ár. Með því móti er komið í veg fyrir verðtryggingu allra eða allflestra tegunda neytendalána, þ.e. annarra en húsnæðislána.
  3. Frá og með ársbyrjun 2020 verði vísitala neysluverðs án húsnæðis grundvöllur verðtryggingar í lögum um vexti og verðtryggingu á nýjum neytendalánum.
  4. Fyrir lok júní 2020 verði lokið athugun á aðferðafræði við útreikning vísitölu neysluverðs út frá alþjóðlegum samanburði og leitað til erlendra sérfræðinga. Meðal annars verði aðferðafræði við húsnæðisliðinn tekin til athugunar auk svokallaðs vísitölubjaga, þ.e. mögulegs ofmats á mælingu vísitölu neysluverðs vegna kerfisbundinnar mæliskekkju.
  5. Fyrir lok árs 2020 liggi fyrir ákvörðun um frekari takmörkun við veitingu verðtryggðra jafngreiðslulána að gefnum forsendum um stöðugleika og vaxtastig. Í því sambandi þarf að skoða sérstaklega áhrif á greiðslubyrði tekjulágra og möguleika þeirra til að fjármagna húsnæðiskaup. Þannig væri unnt að takmarka verðtryggð jafngreiðslulán við 20 ára gildistíma eða skemur eða með setningu hámarks veðsetningarhlutfalls verðtryggðra jafngreiðslulána. Veðsetningarhlutföll gætu breyst eftir stöðu hagkerfisins og verið ólík eftir fyrirkomulagi afborgana, þ.e. jafngreiðslur eða jafnar afborganir eða eftir tímalengd.
  6. Skoðaðir verði auknir hagrænir hvatar til töku óverðtryggðra lána, t.d. í formi veðsetningarhlutfalla, skattfrelsi séreignarsparnaðar og tilgreindrar séreignar eða að vaxtabætur taki aðeins til vaxta en ekki verðbóta.
  7. Leitað verði leiða til að stemma stigu við sjálfvirkum vísitöluhækkunum vöru og þjónustu og skammtímasamninga. Slíkar sjálfvirkar hækkanir kynda undir verðbólgu og hækka þar af leiðandi verðtryggðar skuldir með beinum hætti og óverðtryggðrar skuldir með óbeinum hætti. Samkvæmt könnun frá 2015 er um helmingur innlendra samninga og aðfanga tengdur við vísitölur. Skoðað verður að setja skilyrði fyrir verðbreytingum í samningssamböndum sem tryggja upplýsingaskyldu seljenda og takmarka binditíma og auka þar með neytendavernd.

Sjá yfirlýsingu stjórnvalda um markviss skref til afnáms verðtryggingar