Opið verður fyrir bókanir á Villamartín á Spáni 16. september til 15. október, gildir þá fyrstur bókar fyrstur fær! Í þessum bókunarglugga verður opnað fyrir leigutímabilið jól/áramót 2024/2025 og fram á haust 2025 (sjá nánar neðar).
Félagsmenn geta bókað íbúð í nýlegu þriggja hæða fjölbýlishúsi á Spáni, Villamartín Soleil. Íbúðin er í bæjarfélaginu Orihuela Costa, í hverfi sem heitir Villa Martin. Rétt tæplega klukkutíma akstur er frá flugvellinum á Alicante að húsinu.
Um er að ræða rúmgóða íbúð á jarðhæð í fjölskylduvænum, afgirtum íbúðakjarna með flottri útiaðstöðu, verönd beggja vegna og aðgengi að sameiginlegu, niðurgröfnu sundlaugasvæði á næstu hæð fyrir neðan íbúðina. Lyfta og gott hjólastólaaðgengi er í íbúðakjarnanum. Um tuttugu mínútna akstur er niður á strönd.
Í hjónaherberginu er hjónarúm, góður fataskápur og sér baðherbergi með sturtu, útgengt er út á verönd frá hjónaherberginu. Í gestaherbergi er hjónarúm, góðir fataskápar og hægt að ganga út á verönd. Gestabaðherbergi er með salerni, vask og góðri sturtu.
Í björtu alrými er stofa með svefnsófa og borðstofa með samliggjandi eldhúsi sem er búið öllum helstu áhöldum til matargerðar. Úr alrýminu er útgengt um rennihurð út á stóra verönd með borði, stólum, sófasetti, sólbekkjum, gasgrilli og góðri aðstöðu til að njóta blíðunnar.
Baðhandklæði fylgja leigu, en gestir eru þó beðnir um að koma með sín eigin handkæði til sólbaða og til að taka með á ströndina. Mappa er í íbúð með upplýsingum um húsreglur og öðrum hagnýtum upplýsingum sem tengjast íbúðinni.