Vel mætt á aðalfund félagsins

Við afhendingu þakklætisvotta. Frá vinstri: Claudia Lobindzus, Erla Bjarnadóttir, María Ingunn Trygg…
Við afhendingu þakklætisvotta. Frá vinstri: Claudia Lobindzus, Erla Bjarnadóttir, María Ingunn Tryggvadóttir, Þórdís Bjarnadóttir, Anna María Elíasdóttir, Hallveig Stefánsdóttir og Eiður Stefánsson.

Aðalfundur Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni var haldinn í Alþýðuhúsinu 27. febrúar. Alls mættu rétt tæplega 50 félagsmenn á fundinn og er það vel. Fundarstjóri var Stefanía Árdís Árnadóttir.

Eiður Stefánsson, formaður, kynnti árskýrslu stjórnar og fór yfir liðið starfsár. Í máli hans kom fram hve ánægjulegt það er að félagsstarfið sé komið í réttan takt eftir covid og þakkaði hann félagsmönnum og þeim sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið fyrir vel unnin störf. Þá fór hann yfir niðurstöður Gallup könnunar sem gerð var meðal félagsmanna á síðasta ári. Þar stóð upp úr hve marktæk og jákvæð breyting er með ánægju félagsmanna með þjónustu FVSA, en 84% segjast ánægðir.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var gerð lagabreyting með samhljóma samþykki fundarins á reglugerð Sjúkrasjóðs. Kynning á breytingunni var í höndum Agnesar Reykdal, varamanns í stjórn. Með breytingunni aukast dánarbætur virkra og greiðandi félagsmanna þannig að ef hin látni lætur eftir sig barn (kjör- eða fósturbarn) yngra en 18 ára greiðast vegna hvers barns 800.000,- kr. m.v. 100% starfshlutfall til þess sem sannarlega hefur barnið á sínu framfæri. Er þetta viðbót við þær dánarbætur sem sjóðfélagi á rétt á nú þegar.

Í dagskrárlok kallaði formaður félagsins upp þær Önnu Maríu Elíasdóttur, Hallveigu Stefánsdóttur, Maríu Ingunni Tryggvadóttur, Erlu Bjarnadóttur og Þórdísi Bjarnadóttur, en allar eiga þær það sameiginlegt að hafa sinnt trúnaðarstörfum fyrir félagið í meira en 10 ár og láta nú af hlutverkum sínum. Félagið þakkar þeim fyrir vel unnin störf.

Ársskýrslu félagsins fyrir árið 2022 er hægt að lesa hér.