Forsendur kjarasamninga
VR/LÍV telja skynsamlegt að gera kjarasamning til skemmri tíma. Staðan á vinnumarkaði og í efnahagslífinu bindur hendur okkar og litlar forsendur eru fyrir langtímasamningi. Stöðugleiki í íslensku efnahagslífi stendur ótryggum fótum þar sem óvissa ríkir um afnám gjaldeyrishaftanna á þessu ári.
Ljóst er að árangur náðist með síðustu kjarasamningum hvað varðar verðbólgumarkmið þeirra. En aðrir hópar en félagsmenn VR/LÍV fengu umtalsvert meiri launahækkanir á tímabilinu. Á árinu 2014 lítur út fyrir að afkoma fyrirtækja verði góð og að flest fyrirtæki á markaði muni skila umtalsverðum hagnaði. Auk þess lítur út fyrir að árið 2015 verði hagfellt fyrir atvinnulífið en Seðlabanki Íslands reiknar með 4,2% hagvexti á árinu og hækkun á helstu útflutningsafurðum.
Markmið kjarasamninga er að auka kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Milli áranna 2012 og 2013 dróst kaupmáttur saman um 0,7% eftir litla hækkun, eða 0,3%, milli áranna 2011 og 2012. Árið 2013 var kaupmáttur ráðstöfunartekna svipaður og hann var árið 2003 . Kaupmáttarvísitala VR hækkaði um 3,6% milli áranna 2013 og 2014. Ef kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hækkar svipað á árinu 2014 má búast við að hann verði nálægt því sem hann var um áramót 2003 / 2004.
Launaþróunartrygging
Að mati VR/LÍV er launaþróunartrygging, eða svokallaður baksýnisspegill, best til þess fallin að tryggja sanngirni við þær leiðréttingar sem félagsmenn gera réttmæta kröfu til. VR/LÍV leggja til viðmiðunar hækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna og gera kröfu um krónutöluhækkun fyrir tímabilið 31. desember 2013 til og með 28. febrúar 2015.
Grunnhækkun launa við gildistöku samningsins er kr. 50 þúsund fyrir þá starfsmenn sem voru í starfi hjá sama launagreiðanda þann 31. desember 2013. Frá grunnhækkun dregst önnur sú launahækkun sem starfsmaður hefur fengið frá 1. janúar 2014 til og með 28. febrúar 2015. Miða skal við heildarlaun, þ.e. föst og reglubundin viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast. Frádráttur getur aldrei numið meiru en grunnhækkun.
Dæmi um launaþróunartryggingu (miðað er við laun fyrir fullt starf):
Lágmarkslaun sem voru kr. 204.000 í desember 2013 og eru í dag kr. 214.000 skv. síðustu kjarasamningum, myndu hækka um kr. 40.000 og yrðu kr. 254.000.
Mánaðarlaun sem voru kr. 350.000 í desember 2013 og eru í dag kr. 359.800 , skv. síðustu kjarasamningum, myndu hækka um kr. 40.200 og yrðu kr. 400.000.
Mánaðarlaun sem voru kr. 700.000 í desember 2013 og eru í dag kr. 719.600 , skv. síðustu kjarasamningum, myndu hækka um kr. 30.400 og yrðu kr. 750.000.
Grunnhækkun starfsmanna sem hófu störf á tímabilinu 2. janúar 2014 til 31. desember 2014 er kr. 30 þúsund. Frá grunnhækkun dregst önnur sú launahækkun sem starfsmaður hefur fengið frá 2. janúar 2014 til og með 28. febrúar 2015. Miða skal við heildarlaun, þ.e. föst og reglubundin viku- eða mánaðarlaun að viðbættum föstum álags- eða aukagreiðslum hverju nafni sem þær nefnast. Frádráttur getur aldrei numið meiru en grunnhækkun.
Starfsmenntamál
Aukin menntun og fræðsla eru grunnurinn að styrkari stöðu verslunar- og þjónustufólks. Mikilvægt er að fulltrúar vinnumarkaðarins, í samstarfi við menntayfirvöld í landinu, ljúki við að skilgreina starfsmenntun fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum með námslokum sem verða metin til launa. Í boði verði samfellt nám á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum.
Þá telja VR og LÍV brýnt að tryggja að starfsmenn með stutta formlega menntun fái tækifæri til að fá reynslu sína metna í raunfærnimati sem skili þeim áleiðis að formlegri starfsmenntun.
VR og LÍV telja mikilvægt að fulltrúar vinnumarkaðarins sammælist um bókun um starfsmenntamál í þessum kjarasamningi.
Aðrar kröfur
VR/LÍV lögðu fram kröfugerð í tengslum við gerð kjarasamningar árið 2013. Þá var skrifað undir eins árs aðfarasamning þar sem áhersla var lögð á launaliðinn og undirbúning nýs samnings. Kröfugerð frá 2013 hvað varðar aðra þætti en laun er því enn til umræðu á vettvangi VR/LÍV og atvinnurekenda. Kröfur hvað varðar aðra þætti en launaliðinn eru birtar hér að neðan.
Laun og orlofsréttindi
Vinnutími
Að öðru leyti er vísað til sameiginlegra krafna aðildarfélaga ASÍ.